16.07.1917
Neðri deild: 11. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 841 í C-deild Alþingistíðinda. (3154)

53. mál, stimpilgjald

Flm. (Stefán Stefánsson):

Jeg ætla ekki að fara mörgum orðum um frv., enda ætti þess ekki að þurfa, þar sem aðalástæðurnar fyrir því eru teknar fram í ástæðunum, er fylgja frumvarpinu. Aðalástæðan, sem er öllum kunn, er sú knýjandi þörf á að afla landssjóði tekna, sem öllum má vera augljós. Því að þótt ekki sje litið nema til dýrtíðarmálanna, hljóta allir að sjá, að þær tekjur, sem landssjóður hefir nú, muni lítt hrökkva til að ráða fram úr þeim. Auk þess skortir fje til fjölmargra nauðsynjafyrirtækja, með öðrum orðum, það vantar tilfinnanlega afl þeirra hluta, sem gera skal. Það er því ekkert undarlegt, þegar menn líta yfir ástandið, að menn þá um leið skygnist eftir meiri tekjum og nýjum leiðum til að afla þeirra. Hjer í frv. er bent á eina slíka leið. Málið er að vísu ekkert nýmæli; það kom fyrir síðasta reglulegt þing, flutt þá af hv. 2. þm. Rang. (E. J.) og hv. þm. Dala. (B. J.). Þá var kosin nefnd til að athuga málið, en hún klofnaði. Meiri hluti hennar vildi ekki sinna málinu, en minni hlutinn kom fram með nokkrar breytingartill. við frv. En svo þegar farið var að ræða málið á þingfundi, kom fram rökstudd dagskrá frá hv. 1. þm. Reykv. (Sv. B.), sem fal stjórninni að undirbúa málið undir næsta þing. Nú hefir stjórnin ekkert látið til sín heyra í þessa átt. Höfum við flm. því leyft okkur að flytja þetta frv. og gera þannig tilraun til þess, að þær tekjur fáist í landssjóð, sem það bendir til.

Sennilega hefir rökstudda dagskráin á þinginu 1915 verið samþykt meðfram vegna þess, að málið kom þá svo seint fyrir þingið, að naumast hefði unnist tími til að athuga það svo, sem nægilegt var. Við þessu höfum við viljað gera, með því að koma í tíma fram með málið, svo að tök verði á að gera á því endurbætur, enda er okkur það ljóst, að þess muni þurfa að ýmsu leyti. Frv. er tekið eftir milliþinganefndarálitinu frá 1907, og væntum við þess, að frumvarpið fari svo út úr þinginu, að vel verði við unandi. Reynslan mun svo leiða í ljós, hverjar breytingar eru hagfeldastar í framtíðinni. Fjölyrði jeg svo ekki meir um þetta frv., en leyfi mjer að gera það að tillögu minni, að því verði, að lokinni þessari umræðu, vísað til fjárhagsnefndar.