16.07.1917
Neðri deild: 11. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 845 í C-deild Alþingistíðinda. (3157)

53. mál, stimpilgjald

Flm. (Stefán Stefánsson):

Jeg bjóst síst af öllu við því, að stjórnin sjálf myndi gefa hjer þá yfirlýsingu, að hún skoðaði sig sem nokkurskonar drekkingarhyl fyrir þau mál, sem til hennar er vísað, eða, með öðrum orðum, að hún skoðaði það sem skyldu sína að veita þeim þingsályktunum og dagskrám, sem afgreiddar eru til hennar, hægt og rólegt andlát, eins og hæstv. fjármálaráðherra (B. K.) komst að orði.

Satt að segja, bjóst jeg við, að einhverjar framkvæmdir yrðu hjá stjórninni út af dagskránni, sem þetta mál var afgreitt með 1915, en þó gegna næstum meiri furðu undirtektir hæstv. fjármálaráðh. (B.K.) nú undir þetta mál, vitandi fjárhaginn, sem fyrir liggur. Það er engin ástæða til að skilja dagskrána 1915 svo, sem þingið þá óskaði þessu máli komið fyrir kattarnef, því að þótt þá kæmi fram sviplík skoðun hjá einum þingmanni og nú hjá hæstv. fjármálaráðh. (B.K.) um, að þetta mál væri best komið í gröfinni, þá var það síður en svo, að slíkt væri nokkuð alment álitið, enda mundi þá dagskráin ekki hafa verið samþ.

Annars vil jeg bæta því við það, sem jeg hefi áður sagt, að þetta frv. er ekki fram komið vegna vilja okkar flutningsmanna, heldur var málið líka rætt á mjög fjölmennum þingmálafundi í Eyjafirði og þar samþykt í einu hljóði tillaga um, að stimpilgjald yrði leitt í lög á þessu þingi. Við höfum því vilja kjósenda okkar með okkur í þessu máli, og jeg hefi ástæðu til að ætla, að því verði ekki illa tekið af landsbúum yfir höfuð, að málið nái fram að ganga. Almenningur sjer það vel, að þörf er á að fá fje í landssjóð, og það einnig, að hjer er um rjettlátt gjald að ræða, sem einkum greiðist af efnamönnum og fjárbröskurum.