30.07.1917
Neðri deild: 20. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 851 í C-deild Alþingistíðinda. (3163)

53. mál, stimpilgjald

Fjármálaráðherra (B. K.):

Jeg vildi einungis segja nokkur orð í sambandi við það, sem jeg sagði um daginn. Hugur þingsins var fallinn frá því að samþykkja þessi lög, því að þau voru að nokkru leyti tekin upp í önnur lög, nefnilega aukatekjulögin, þegar hækkuð voru þinglestrargjöldin. — Jeg get ekki annað sagt en að mjer þykir hv. fjárhagsnefnd vera nokkuð sparsöm á þeim tillögum sínum, sem hún ætlast til að veiti landssjóði tekjur, því að það má segja um þetta frv., að þótt það verði að lögum, þá hefir það tiltölulega litla þýðingu fyrir landssjóðinn, því að tekjuaukinn er svo óverulegur, að ekki munar nema 25—30 þús. kr. á ári, og auk þess hlýtur að ganga frá mjög mikill kostnaður við innheimtu gjaldsins. Auk þess eru lögin ekki nægilega skýr. Þau þyrftu að vera talsvert lengri og ítarlegri til þess, að þau kæmu að fullum notum, og auk þess vera meir í samræmi við líka löggjöf annara landa. En einkum vildi jeg benda nefndinni á, að nauðsynlegt er, að tekjurnar sjeu teknar í einu í stórum stíl. Jeg segi þetta ekki sem neinar ákúrur til nefndarinnar, heldur sem bendingar.

Það, sem jeg vildi einkum minnast á, eru nýmæli nefndarinnar, að láta stimpilgjaldið ná til bæði víxla og ávísan. Jeg veit ekki, hvort nefndin á hjer einnig við að láta gjaldið ná til tjekka. Um þetta er það að segja, að tjekkar eru víðast hvar í heiminum gjaldfrjálsir, jeg held alstaðar nema í Englandi, þar sem lagt er á þá „penny“-gjald. Jeg held, að það sje mjög misráðið af deildinni, ef hún lætur stimpilgjaldið einnig ná til tjekka, því að hjer horfir talsvert öðruvísi við en annarsstaðar í heiminum. Hjer er nefnilega það mikill siður, að kaupmenn nota bankana fyrir kassabók og gefa út tjekkávísanir jafnvel á 1—2 kr. Það kæmi því mjög illa við að verða að borga kr. 0,50 af hverri tjekkávísun, sem gefin væri út. Jeg held líka, að það sje regla alstaðar í heiminum, að víxlar, sem borgast innan 3 daga sjeu gjaldfrjálsir. Þá er einnig annað atriði í sambandi við víxlana, og það er sú tillaga nefndarinnar, að framlengdir víxlar skuli vera skattskyldir. Erlendis eru víxlar altaf, eða svo að segja altaf, greiddir á gjalddaga, en hjer er miklu tíðara, að víxlar sjeu framlengdir. Þegar nú sumir víxlarnir eru svo smáir, að ekki nema nema 10 kr., þá er auðsætt, að slíkt kemur mjög illa við, þar sem minstu forvextir sem teknir eru, eru kr. 1,00. Jeg held, að rjett væri, að stimpilgjaldið næði ekki til smærri víxla en 100 kr. Erlendis er stimpilgjald af víxlum miðað við tímalengd þeirra. Hjer stendur dálítið öðruvísi á. Hjer eru notaðir 12 mánaða víxlar eða sjálfsskuldarábyrgðarlán, og kæmust þeir því miklu ljettara út af því en hinir víxlarnir, sem altaf þarf að vera að framlengja. Jeg þekki, síðan jeg var bankastjóri, víxil, sem borgaðist á 10—20 árum. Af öllu þessu er auðsætt, að hjer þarf margs að gæta, og betra er að flaustra ekki að neinu. Jeg bendi nefndinni einungis á þetta og vona, að hún taki það til athugunar. Sömuleiðis þarf hún að koma sjer niður á það, hvort taka skuli stimpilgjald af erlendum víxlum, sem einungis eru sendir hingað til „accept“. Rjettast þætti mjer að miða gjaldskylduna einungis við nýja víxla og ekki styttri en 6 mánaða.