30.07.1917
Neðri deild: 20. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 856 í C-deild Alþingistíðinda. (3166)

53. mál, stimpilgjald

Sveinn Ólafsson:

Háttv. þm. Dala. (B. J.) og háttv. framsm. (M. G.), sögðust furða sig á því, sem jeg sagði um niðurjöfnun landskatts. Það lag hafa þó frændur vorir Norðmenn, sem eru ekki taldir neinir glópar í löggjöf, tekið upp fyrir löngu. Er því óþarft að telja orð mín um það efni furðu- eða afkáraleg. Jeg kom reyndar ekki fram með beina tillögu um þetta, en benti á þetta eins og leið, sem hugsanleg væri, og ekki ólíklegri en stimpilgjald. En það er alls ekki óhugsandi, að farið verði inn á þessa braut síðar meir, því að margt hvetur til, að svo verði gert. Annars skal jeg ekki fjölyrða um það nú.

Annað hafði háttv. frsm. (M. G.) misskilið, nefnilega það, sem jeg sagði um óbeinu útgjöldin, sem myndu leiða af því, ef stimpilgjaldsfrv. yrði að lögum. Jeg átti auðvitað við ferða- og tímakostnað þeirra manna, sem þyrftu að fara langar leiðir til þess staðar, þar sem stimpilmerkin fengjust. Það er engu líkara en að í frumv. sje gert ráð fyrir, að allir byggju í Reykjavík, því að ekkert tillit er tekið til þess. hvað við á úti um land. í frv. er ekkert ákvæði um, hvar selja skuli stimpilmerkin, hvort það skuli gert í bönkunum, hjá sýslumönnum eða hvar. Ef nokkuð verður af frv. ráðið um þetta, þá er það hjá sýslumanni. Það getur komið sjer bagalega fyrir þá, sem eiga margar dagleiðir til sýslumanns. (M. G.: Þetta er alger misskilningur).

Þessi aðferð til að afla landssjóði tekna yrði býsna umfangsmikil, og það þó tekjurýr um leið. Enda væru og margar leiðir til að koma sjer undan ákvæðum laganna, t. d. um stimpilgjöld af víxlum sú, að taka marga lága víxla í staðinn fyrir einn háan. (G. Sv.: Það er ekki tillaga nefndarinnar). Satt er það að vísu, en það er engu síður hægt.