25.08.1917
Efri deild: 39. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 863 í C-deild Alþingistíðinda. (3179)

53. mál, stimpilgjald

Frsm. (Hannes Hafstein):

Jeg get verið stuttorður um þetta mál, því að í nefndarálitinu er gerð grein fyrir tillögu nefndarinnar um, að frv. verði ekki látið fara lengra að þessu sinni, en málinu verði vísað til stjórnarinnar. Nefndin hefir ekki lagt þetta til fyrir þá sök, að hún sje í sjálfu sjer á móti því, að landinu sje aflað tekna á þennan hátt, en henni virðist málið oflítið undirbúið, sjerstaklega í því efni, á hvern hátt hugsað er til að lögin verði framkvæmd. Engin grein er gerð fyrir því, hvort tilætlunin sje að stofna sjerstakt embætti fyrir útsölu stimpilmerkjanna, eða hvort önnur leið sje haganlegri. Jeg vænti þess, að hv. deild hafi kynt sjer nefndarálitið, svo að jeg þurfi ekki að endurtaka það hjer, sem í því stendur. Jeg skal ekki tefja deildarmenn lengur, en vona, að tillaga nefndarinnar verði samþykt.