10.09.1917
Neðri deild: 56. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 874 í C-deild Alþingistíðinda. (3193)

57. mál, laxveiði

Jörundur Brynjólfsson:

Jeg álít til lítils að fara langt út í málið, er svo er á liðið þingtímann, og þótt reynt væri að koma frumvarpinu fram, er þess enginn kostur hjeðan af.

Hins vegar get jeg ekki varist því að láta í ljós, að mjer sýnist nefndin hafa verið nokkuð seinvirk að þessu litla, sem hún hefir gert, þar sem nú hafa verið prentuð nær 800 þingskjöl síðan frv. kom fram, og nefndin svo eftir allan þann tíma skilið við frv. óathugað.

Hv. frsm. (S S.) gat þess, að nefndin hefði við fyrsta yfirlestur sjeð, að ekki væri hægt að samþykkja frv. óbreytt. Við flutningsmenn lýstum þegar yfir við 1. umr., að þegar frumvarpið hefði verið komið í prentsmiðjuna, hefðum við tekið eftir ýmsum atriðum, sem lagfæringar þyrftu. En nefndin hefir ekki á neinn hátt leitast við það, að því er sjeð verður.

Jeg sje ekki til neins að fara út í einstök atriði frv., og eftir atvikum getum við flutningsmenn sætt okkur við þessa leið, sem landbúnaðarnefnd ræður til að málinu sje vísað til stjórnarinnar, auðvitað í því trausti, að stjórnin geri sitt ítrasta til að undirbúa málið.

Jeg undrast ekki, þótt nefndin geti ekki lagt til, að frv. verði samþykt nú á þessu þingi, eftir því, sem mjer virðist hún líta á málið. Henni sýnist alls ekki ljóst, hve þýðingarmikið málið er. Jeg held, að jeg hafi við 1. umr. tekið dæmi fyrir því, hve laxveiði gefur miklar tekjum víða erlendis. Jeg skal nú taka eitt dæmi, í sambandi við eitt ákvæði frv., um laxastigana.

Í á einni á Írlandi var foss skamt frá flæðarmáli, og komst lax ekki upp í hana. En svo var settur í hana laxastigi. Eftir fá ár veiddust til jafnaðar í henni um 10 þúsund laxar árlega. Ef það er heldur vænn lax, samsvarar það 60000 kr. Jeg get þessa til að sýna, hve laxveiði er afarþýðingarmikil. Jeg hefði viljað, að landbúnaðarnefnd hefði lagt meiri áherslu á að hvetja stjórnina til að gefa málinu gaum.

Jeg hefi ekkert á móti því, að leitað sje álits laxveiðenda, eins og nefndin æskir, en vafasamt er að treysta því, að tillögur þeirra verði það besta, og hætt við, að þær verði ærið sundurleitar.

Jeg skal að síðustu geta þess, að þetta frv. var flutt í þeim einum tilgangi að koma í veg fyrir, að laxinn gengi hjer til þurðar, og auka laxveiði í landinu. Þetta átti nefndin að sjá, og virða tilganginn með því að taka frv. vel og laga þá galla, sem hún fann á því, og láta það ná fram að ganga á þessu þingi.

Jeg vænti þess, að hæstv. stjórn undirbúi málið sem allra best að kostur verður á.