10.09.1917
Neðri deild: 56. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 875 í C-deild Alþingistíðinda. (3194)

57. mál, laxveiði

Frsm. (Sigurður Sigurðsson):

Mjer virðist ekki vera mikill áhugi fyrir þessu máli hjer í deildinni, því að flestir þm. hafa farið út á meðan hv. 1. þm. Reykv. (J. B.) talaði.

Jeg tók það fram áðan, að nefndin hefði þegar í stað komist að þeirri niðurstöðu, að afgreiða ekki málið á þessu þingi, og þess vegna flýtti nefndin sjer ekkert með nefndarálitið. Henni virtist það vera sama, hvort málinu væri vísað fyr eða síðar til stjórnarinnar.

Hv. 1. þm. Reykv. (J. B.) talaði um það, að nefndin mundi ekki hafa haft neitt vit á þessu máli. — Jeg skal ekkert deila við hann um það, en auðheyrt er, að hann hefir gengið í skóla til manna hjer á þingi, sem mikið álit hafa á sjálfum sjer, og lært af þeim að telja sjer trú um, að enginn hafi vit á neinu nema hann sjálfur. Þó skal jeg geta þess, að sumir nefndarmennirnir munu vera aldir upp við laxveiði frá barnæsku.

Laxastigar við fossa hafa vitanlega mikið að þýða. En því er nú svo varið, að það eru margar laxár hjer á landi, sem enginn foss er í, er hindrar laxgöngur. Að vísu er ein á hjer á Suðurlandi, sem svo er háttað um, að foss er í henni, sem hindrar laxgöngu. En þótt settur væri laxastigi í þann foss, þá mundi lax ekkert viðnám hafa fyrir ofan fossinn.

Jeg skal svo ekki eyða fleirum orðum að frv. Jeg tel það mjög sæmilega úrlausn á málinu að vísa því til stjórnarinnar á þennan hátt, sem lagt er til í nefndarálitinu.