23.08.1917
Neðri deild: 41. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 142 í B-deild Alþingistíðinda. (32)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Pjetur Ottesen:

Jeg get eftir atvikum verið háttv. fjárveitinganefnd þakklátur fyrir undirtektir hennar undir málaleitan Borgfirðinga um brú á Hvítá hjá Hvítárvöllum og vegarkafla við brúna.

Eins og háttv. framsm. (M. P.) tók fram þá hafa verið lagðar fram frá hjeraðinu til þessa fyrirtækis 30 þús. kr., helmingur þar af með samskotum, en hitt með tillagi frá sýslunum, einkum frá Borgarfjarðarsýslu. Um nauðsyn þessa verks hefi jeg ekki mikið að segja; fjárframlög hjeraðsins benda ótvírætt til þess, hversu mikil nauðsyn er á því að fá þessa samgöngubót. Sú breyting er nú orðin á versluninni, að nálega öll verslun fyrir ofan Skarðsheiði er nú rekin í Borgarnesi, en einmitt á þeim vegi er Hvítá slæmur þröskuldur. Í Borgarnesi er sláturhús og þangað reka menn því fje á haustum, en það er miklum erfiðleikum bundið, með því að ferja verður yfir ána, og er sá flutningur oft, þegar illa viðrar, ókleifur tímunum saman. Eins er um vöruflutninga. Annaðhvort flytja menn vörurnar á Seleyri, sem liggur andspænis Borgarnesi, eða upp eftir Hvítá á báti og svo þaðan landveg á klárum. Sjóleið þessi er mjög stopul allan ársins hring, því að grynni er mikið í firðinum og oft oflítið í ánni á sumrum, en ófært fyrir veðrum og ís á vetrum. Þessum kjörum verða allir á þessu svæði að sæta, nema 2 efstu hrepparnir, sem krækja upp á Kláffossbrú og fara svo hina svo kölluðu Borgarfjarðarbraut.

Landsverkfræðingurinn getur þess í umsögn sinni um þetta mál, að þegar brú þessi væri komin á, mundu þeir, sem fara landleiðina frá Reykjavík til Stykkishólms og vestur í Dala- og Barðastrandarsýslur, eingöngu fara þessa leið. Það, sem farið var fram á, var í samræmi við álit landsverkfræðings, sem sje að landssjóður legði fram það fje, sem þarf í viðbót við tillag hjeraðsins, er eftir hans áliti nemur hjer um bil ? alls kostnaðarins. Eins og háttv. framsm. (M. P.) tók fram hefir landsverkfræðingurinn eindregið mælt með þessari fjárveitingu, en fjárveitinganefnd hefir ekki sjeð sjer fært að ganga svo langt nú að þessu sinni, og verður þá við það sitja. En það var engan veginn meining okkar, að brúin væri sett upp á næsta fjárhagstímabili; útlent efni, sem til þess þarf, er nú svo erfitt að fá og svo dýrt, enda hefir landsverkfræðingurinn tekið það fram, að aðrar stórbrýr, sem hann nefnir og komnar eru inn í fjárlögin, en orðið hefir að fresta byggingu á, sökum ástandsins, verði að sitja fyrir. Alt öðru máli er gegna um eitthvert fjárframlög til vegakaflanna nú á þessu fjárhagstímabili, svo að hægt verði að byrja eitthvað á þessu nauðsynjaverki. Allir eru sammála um það, að ekki beri að kippa að sjer hendinni með vegagerðir, því að þær miði að því að veita mönnum atvinnu í landinu.

Jeg vil svo að síðustu taka það fram, að jeg slæ því þá föstu, að orð háttv. framsm. (M. P.) megi skoða sem fyrirheit um fjárveitingu til þessa verks, þegar kringumstæður og önnur atvik leyfa.

Þá skal jeg snúa mjer að brtt. háttv. fjárveitinganefndar á þgskj. 579. Mig undrar það, að nefndin skuli leggja það til, að þeir litlu styrkir, sem ætlaðir eru til Hvalfjarðarbáts og Hvítárbáts, skuli feldir niður. Hvalfjarðarbáturinn hefir notið 400 kr. styrks árlega, og sömu upphæð hefir stjórnin sett í fjárlagafrv. sitt árlega. Þessar samgöngur eru alveg bráðnauðsynlegar til vöruflutninga fyrir stórt svæði, sem tekur yfir Kjósina, Hvalfjarðarströnd og dali eða bygð, sem þar liggur upp af. Það er því undarlegt að kippa þessari fjárveitingu burt, samtímis því sem nefndin leggur til að hækka tillag til annara samskonar báta. Vona jeg því, að háttv. þingd. verði við þeirri ósk minni að kveða niður þessa brtt. nefndarinnar.

Um Hvítárbátinn er það að segja, að hann hefir komið að miklu liði. Hann var smíðaður sjerstaklega með það fyrir augum að ganga upp eftir ánni, en aðstöðu þeirra Borgfirðinganna til flutninga úr Borgarnesi hefi jeg áður lýst. Jeg vona því, að háttv. þingd. líti sanngjarnlega á málið og láti að minsta kosti standa þann styrk, sem er í fjárlagafrv.

Háttv. samgöngumálanefnd tekur fjárveitinganefndinni stórum fram að sanngirni í þessu efni; hún leggur til, að styrkurinn haldist, en hins vegar vill hún þó ekki hækka hann, og þykir mjer það ilt og ekki í samræmi við aðrar tillögur sömu nefndar., sem fela í sjer hækkun á tillagi til Rauðasandsbátsins og Lagarfljótsbátsins.

Jeg vænti, að háttv. þingd. taki þessum brtt. mínum vel, bæði sanngirni vegna, og ekki síður vegna þess, að hjer er um svo ofurlitla hækkun að ræða, að eins 100 kr. á ári til Hvítárbátsins og 200 kr. á ári til Hvalfjarðarbátsins.