01.08.1917
Neðri deild: 22. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 882 í C-deild Alþingistíðinda. (3216)

94. mál, skipulag kauptúna og sjávarþorpa

Flm. (Magnús Pjetursson):

Jeg þarf ekki að vera langorður um þetta mál að svo stöddu. Jeg á því miður ekki sjálfur heiðurinn af að hafa búið það til, eins og sjá má á ástæðunum, sem færðar eru fyrir því. Höfundurinn er prófessor Guðm. Hannesson, og ástæðurnar fyrir frv. eru raktar af honum svo rækilega, að jeg sje ekki ástæðu til að fjölyrða um það. Allir þekkja það skipulagsleysi, sem er ráðandi í öllum kauptúnum hjer á landi, þar sem húsunum er þeytt sínu í hverja áttina, án nokkurrar reglu eða framsýni. Enn eru þó flest þorp hjer á landi svo strjálbygð, að þetta kemur ekki að mikilli sök, en óðar en þau stækka er voði á ferðum, ekki einungis frá fjárhagslegu sjónarmiði, heldur og, það sem verra er, frá heilbrigðislegu sjónarmiði. Aðrar þjóðir hafa þegar öðlast mikla og sorglega reynslu í þessum efnum, en, sem betur fer, höfum við Íslendingar ekki enn þurft að reka okkur á samskonar reynslu. Hjá öðrum þjóðum hefir oft orðið að rífa til grunna heila borgarhluta og byggja að nýju, vegna þess, að ekki hefir verið gætt skipulags í tæka tíð. Jeg vil leyfa mjer að nefna eitt sláandi dæmi upp á það, hve heilbrigði manna í bæjum fer mikið eftir góðu skipulagi. Í borg einni á Bretlandi var fyrir nokkru rifinn gamall bæjarhluti og bygður að nýju. Dánartalan lækkaði við það úr 60°/oo niður í 27°/00, og tala þeirra, er dóu úr berklaveiki, lækkaði úr 4°/oo, niður í 1.9°/oo. Þetta er dálítil bending um, hve þetta er afaráríðandi mál. Það er ekki eingöngu þegar svona stendur á, að dánartala minki mjög, heldur taka og börn, sjerstaklega fátækara fólksins, miklu betri framförum.

Það getur nú verið, að einhverjum blæði í augum kostnaðurinn, sem frv. þetta hefir í för með. sjer, ef það verður að lögum, en þetta er í raun og veru sparnaður, því að kostnaðurinn er að eins tímaspursmál. Þetta verður að gera, og því fyr sem í hann verður lagt, því minni verður hann, og þess meira gagn hlýst í aðra hönd. Það getur skeð, að sumum finnist ekki þörf á, að málinu sje hreyft á þessu þingi, en það er nú svo samt, því að jeg held, að því bráðliggi á að komast í framkvæmd. Eins og kunnugt er liggja nú allar húsabyggingar í dái, og bæirnir aukast ekki mikið, en því meiri líkur eru til, að þegar stríðinu linnir, verði mikið bygt, og þá er það afaráríðandi, að ekki verði bygt í eintómri óreiðu.

Nauðsyn þessa máls er nú því meiri en nokkurn tíma áður, að nú má vænta þess, að farið verði alment að byggja úr steini í næstu framtíð, og verður því fyrirhafnarminna að koma þessu skipulagi á nú en það mundi verða síðar.

Jeg skal svo ekki fjölyrða frekar um málið að sinni, en vænti þess, að sú nefnd, sem væntanlega fær málið til meðferðar, kynni sjer rit Guðm. Hannessonar, og leiti auk þess upplýsinga hjá honum um málið, því að jeg get fullyrt, að þar er mikinn fróðleik að fá.