06.08.1917
Neðri deild: 26. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 887 í C-deild Alþingistíðinda. (3224)

120. mál, bygging, ábúð og úttekt jarða

Hákon Kristófersson:

Það er búið að taka fram mikið af því, sem jeg vildi segja, og ætla jeg því ekki að tala mikið á þessu stigi málsins, en að eins gera stutta athugasemd. Jeg verð að taka í sama strenginn og hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.), að mjer finst þetta frv. vera mesti gallagripur, og er hissa á, að það skuli vera frá jafnskynsömum manni og hv. 1. þm. Árn. (S. S.) er. Það er að vísu rjett, að frv. fer í umbótaátt fyrir leiguliða, en það má ekki heldur íþyngja mjög eigendum jarðanna. Jeg felli mig mjög vel við þá rjettarbót, að leiguliðar fái endurgjald fyrir jarðabætur. Ákvæðin um hús þau, er leiguliði lætur eftir sig á jörðinni, virðast þó ekki vera í umbótaátt í frv. Við vitum, að leiguliðar hafa oft orðið mjög illa úti, þegar þeir hafa bygt upp á jörðum, því að samkvæmt lögum eru þeir skyldir til að selja viðtakanda húsin, ef hann vill kaupa þau, en eru rjettlausir með þau, ef þeir geta ekki flutt þau, og viðtakandi vill ekki kaupa þau. Sú sala á að vera eftir mati úttektarmanna, sem því miður er oft ekki sem rjettlátast. Í sambandi við það má benda á, að víðast hvar munu úttektarmenn hafa fylgt þeirri reglu að láta fráfarendur ekkert hafa fyrir tóftir á húsum, að eins metið viðina. Allir sjá, hve þetta er óhafandi, og þó að þetta sje nokkuð aðlagast, þurfa að vera um það bein og skýr ákvæði.

Ákvæðið í 1. gr. þessa frv., að ekki megi leigja jörð skemur en til l0 ára, er ótækt, því að það brýtur í bág við allan umráðarjett manna yfir eign sinni, auk þess sem það er til ills eins fyrir þá, sem vilja fá leigðar jarðir til skemri tíma en 10 ára, og þar að auki er það bein kúgun við jarðeigendur. Mjer er ekki heldur ljóst, að hægt sje að samrýma 1. og 5. gr. 1., 4., 5., 6. og partur af 7. gr. finst mjer vera svo gallaðar, að þær þurfi mjög mikilla umbóta við hjá nefnd þeirri, sem væntanlega fjallar um málið, til þess að þær geti samrýmst heilbrigðri skynsemi. Úr því að á annað borð er farið að gera umbætur á gildandi ábúðarlögum, hefðu þær þurft að vera miklu víðtækari, svo að ekki þurfi altaf að vera að rekast í þeim. — Á þessu stigi málsins ætla jeg ekki að ræða það frekar, en vona, að nefndin lagi frv. eitthvað til muna.

Að lokum vil jeg svo þakka hv. flm. (S. S.) fyrir, að hann hefir ráðist í að flytja umbótatillögur við þessi lög. Það var svo mikil þörf á að hreyfa þessu máli, að það er mjög virðingarvert af hv. flm. (S. S.) að hafa ráðist í það. Enda þótt brtt. hans sjeu ekki nægilega víðtækar, og sumar alls óhæfilegar, þá hefir hann, með því að hreyfa málinu, stigið ef til vill heppilegt spor í umbótaáttina.