06.08.1917
Neðri deild: 26. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 889 í C-deild Alþingistíðinda. (3225)

120. mál, bygging, ábúð og úttekt jarða

Sveinn Ólafsson:

Þótt jeg standi upp, þá er það ekki til þess að gefa nefndinni neinar bendingar, því að, satt að segja, vildi jeg helst alveg losa hana við að vinna að þessu máli; mjer finst varla taka því, þegar um jafnfáar greinar ábúðarlaganna er að ræða, og þær slitnar svona úr heildarsambandi. Jeg hefi enga trú á því að fara að hrófla við ábúðarlögunum, nema með löngum og ítarlegum undirbúningi. Jeg er alveg samdóma hv. samþingismanni mínum (B. St.), að ofskamt sje farið í þessu frv., og í öðru lagi vil jeg benda á, að varkárni verður að hafa, ef maður á ekki að brenna sig á þessum breytingum — og eigi að spilla því, sem átti að bæta, eins og mjer virðist hjer gert með almenna ákvæðinu um 10 ára ábúð. — Jeg skal nefna annað dæmi. 2. gr. ábúðarlaganna frá 1884 tekur fram, hve langur byggingartími skuli vera, og mjer er enn í minni, hve miklar og ákafar umræður urðu um það eina atriði, þangað til menn komust loks að þeirri niðurstöðu, að heimila að byggja jarðir til 1 árs. Meðan mönnum er heimilað að eiga landeignir má ekki takmarka um of umráðarjett eigandans yfir þeim. Meðan þessi rjettur er viðurkendur getur ekki komið til mála, að sá, sem á jörð, geti ekki haft umráð yfir henni nema með 10 ára fyrirvara. Eftir þessu frv. verður það svo, að jarðeigandi, sem ætlar barni sínu jörð til ábúðar, verður að binda hana í 10 ár, þótt barnið hafi hennar þörf miklu fyr, og má ekki heldur halda henni óbygðri.

Það er eitt atriði, sem verður að koma til athugunar, sem sje það, að ekki er hlaupið að því að breyta þessum lögum, og það er síður en heppilegt að hafa þennan rjett á sífeldu reiki. Og fyrir mitt leyti ætla jeg því að greiða atkvæði móti því, að frv. þetta verði látið ganga til 2. umr. og nefndar.