13.09.1917
Neðri deild: 59. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 897 í C-deild Alþingistíðinda. (3231)

120. mál, bygging, ábúð og úttekt jarða

Frsm. (Jón Jónsson):

Það var frá upphafi meining nefndarinnar að afgreiða ekki þetta frv. nú á þessu þingi, alveg af sömu ástæðum sem á undanförnum þingum, sem sje að vjer höfum ekki tök á að athuga málið svo vel, sem skyldi, og teljum því ekki forsvaranlegt að samþ. það nú.

Hv. flm. (S. S.) hefir sjálfsagt hugsað málið vel, en ekki hafa honum hugsast neinar breytingar, nema við 2. gr., frá því sem áður var. Það getur vel orðið niðurstaðan, að frv. verði að lyktum samþ. í þessu formi, því að margir góðir menn hafa hjer lagt í púkk, og má búast við, að þeir hinir sömu leggi enn eitthvað gott til, t. d. eins og hv. þm. S.-Þ. (P. J.), sem sat í milliþinganefndinni í búnaðarmálum hjer um árið. Jeg minnist þess, að hann gat þess, fyrst þegar þetta frv. kom fyrir þingið, að einmitt þetta mál væri það, sem milliþinganefndin strandaði á og varð að varpa frá sjer.

Hvernig sem á þetta mál er litið, þá hefir engin frekari rannsókn farið fram nú en á undanförnum þingum, svo að ekki kemur til mála að samþ. frv.