13.09.1917
Efri deild: 56. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 902 í C-deild Alþingistíðinda. (3248)

140. mál, verðlag á vörum

Forseti (af þingmannabekk):

Jeg vil fyrst geta þess, að rjettilega hefir verið

fundið að því, að þetta mál skuli ekki hafa verið tekið fyr á dagskrá. Mætti ef til vill kenna mjer, sem forseta, um þetta, en orsökin til þess, að jeg hefi ekki tekið málið fyr á dagskrá, er sú, að bjargráðanefnd þessarar hv. deildar hefir haft svo mörg vandasöm mál með höndum, að jeg vildi gefa henni tóm til þess að íhuga þetta mál eftir að mesta annríkinu væri lokið.

Jeg geri ráð fyrir, að öllum hv. þingdeildarmönnum muni vera það kunnugt, að jeg hefi haft sjerstaklega náin kynni af þessu máli, þar eð jeg hefi verið formaður verðlagsnefndarinnar, og því kynst þeim vandkvæðum, sem hjer eru á. Jeg gaf þegar í þingbyrjun bjargráðanefndinni í skyn, að hjer væri um vandasamt úrlausnarefni að ræða, en, eins og við vitum allir, hafa ýms mál tafist svo í hv. Nd., að ekki hefir verið kostur á að sinna þeim eins mikið í þessari hv. deild og æskilegt hefði verið.

Reynsla mín um þessi vandkvæði hefir verið sú, að síðan aðflutningaörðugleikarnir byrjuðu hefir verið mjög erfitt að fá nægilega mikið af nauðsynjavöru til landsins. Þetta kom ekki síst greinilega í ljós í vor sem leið. Þar við bætast önnur vandræði, sem hið háa Alþingi hefir því miður ekki gefið nægilegan gaum í sumar. Vandkvæðin eru þau, að þó að nóg sje af einhverri nauðsynjavöru í landinu, þá getur samt verið tilfinnanlegur skortur á henni í einstökum hjeruðum. Gæti jeg fært mýmörg dæmi þessu til stuðnings. Þetta getur orðið afarbagalegt að vetrarlagi, þegar samgönguerfiðleikarnir eru mestir. Hins vegar stendur þetta atriði í nánu sambandi við gangverð á nauðsynjavöru. Það er sem sje alheimsreynsla, að alstaðar þar, sem tilfinnanlegur skortur verður á einhverri vörutegund, spennist verð hennar upp og getur orðið að okurverði. Eru nægar sannanir fyrir því í ýmsum skjölum, sem borist hafa til þingsins, að eftir að samgönguteppan skall á komust ýmsar nauðsynjavörur í gapaverð víða á landinu. Nú er ekki um það að villast, að frv. það, sem hjer liggur fyrir, er aðallega fram komið vegna óánægjunnar út af hámarksverðinu á smjöri. Jeg ætla mjer ekki að fara neitt út í það mál að þessu sinni, en svo stóð á þeirri ráðstöfun, að tilfinnanlegur feitmetisskortur var á Suðurlandi, en smjörverðið var orðið óhæfilega hátt — hálf þriðja króna pundið. Mikið hefir verið um það deilt, hvort hámarksverðið hafi verið rjettlátt. Hjer á Suðurlandi var það talið oflágt, en sumstaðar annarsstaðar á landinu var það talið ofhátt. En jeg vil leyfa mjer að gera það kunnugt, að jeg, sem hefi haft mest kynni af verðlagsvandræðunum, hefi komist að þeirri niðurstöðu, eftir misserisreynslu mína, að ekki sje gerlegt að setja hámarksverð á innlendar afurðir nema undir þeim kringumstæðum, að verðið sje orðið bersýnilega óhæfilegt, eða að alþýða manna rísi annars vegar öfug upp og heimti hámarksverð og tilfæri jafnframt þær ástæður, sem vert sje að taka til greina. Það er sem sje tilgangslaust að setja hámarksverð, sem alþýða manna felst ekki á og vill ekki sinna. Það getur orðið til þess eins, að menn hætta alveg að taka hámarksverð til greina, á hvaða vörutegund sem er. Verðlagsnefndin hefir því komist að þeirra niðurstöðu, eftir vandlega íhugun, að rjett sje nú að koma með tillögu um það, að hámarksverð á smjöri verði úr gildi numið.

Alt öðru máli er að gegna um útlendar vörur, og þar er vandinn enn meiri. Mín reynsla er sú, að ef til þess kemur, að tilfinnanlegur skortur verður á útlendri nauðsynjavöru, þá er það enn meiri erfiðleikum bundið að koma í veg fyrir, að verð á henni fari fram úr hófi; Er þar tvenns að gæta, annars vegar að hafa stöðuga aðgæslu með gangverðinu, og hins vegar að meta rjett útsöluverðið. Kringumstæðurnar eru svo breytilegar, að óhugsandi er að hafa sama hámarksverð um land alt á nokkurri útlendri vöru. Verð á sömu vöru er sífelt að breytast; er aðgæslan því afarnauðsynleg, en jafnframt mjög erfið. Er því mikil þörf á að íhuga löggjöfina um þetta mjög rækilega. Mjer voru það því mikil vonbrigði, er jeg sá, hvernig frv. kom frá háttv. Nd., en jeg get vel skilið, að bjargráðanefnd þessarar háttv. deildar hefir ekki treyst sjer til að breyta frv. svona seint á þingi. Hins vegar er það aðgætandi, að vjer eigum einhvern tíma að standa þjóðinni reikningsskap af gerðum okkar hjer, og gæti þá svo farið, að þessi póstur á reikningnum yrði nokkuð stór, ef mikið skyldi þrengja að. Löggjöf um þetta efni er ekki lítils virði. Þarf ekki að minna á annað en það, hversu mikils er vert um eftirlitið eitt. Ef sífelt er verið að streitast við að afla upplýsinga, og menn látnir verða varir við, að eftirlitið er í fullum gangi, þá gerir það aðhald eitt út af fyrir sig afarmikið gagn, óbeinlínis. Samt hefir nú svo farið, að í frv. hefir einmitt verið gengið fram hjá þessu atriði, sem er svo mikilsvert Jeg vildi því leyfa mjer að fara þess hæversklega á leit við bjargráðanefndina, að hún taki málið enn einu sinni til íhugunar til 3. umr., og að henni mætti þóknast að veita mjer áheyrn, svo að jeg geti skýrt henni frá, hvaða vandi er hjer á ferðum. Það er fjarri mjer að vilja vekja deilur um málið; þetta eru að eins vinsamleg tilmæli mín. Fer jeg því ekki frekari orðum um þennan vanda að þessu sinni.