21.08.1917
Neðri deild: 39. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 916 í C-deild Alþingistíðinda. (3257)

159. mál, forkaupsréttur á jörðum

Bjarni Jónsson:

Það er að eins örstutt athugasemd, sem jeg vildi gera.

Jeg vildi bæta við það hjá háttv. 2.þm. Árn. (E. A.), hversu miklir vafningar það verða, eftir þessu frv., að selja jörð. Og er það alveg rjett athugað hjá honum. En þetta kemur til af því, að hjer er bitið í sundur það rjetta, það er að segja, það spor, sem hjer er verið að stíga, er ekki stigið til fulls, heldur að eins tæpt á því. Því að stefnan ætti auðvitað að vera sú, að landssjóður notaði forkaupsrjett sinn og keypti jafnóðum og jörð fengist. En þessar flækjur, ef jeg mætti svo segja, eru tilkomnar af þeim hrapallega misskilningi, að menn halda, að það sje rjettur veiðimannaháttur að elta 2 hjera í einu. Þessi málsháttur er þýskur, og er Þjóðverjum manna best kunnugast um, að svo er ekki. (J. J.: þetta er alveg ný stefna). Nei, það er ekki heldur rjett, því að þessi skoðun er kend við mjög þektan mann, H. George, og þaðan hefi jeg hana. Menn getur að vísu greint á um framkvæmdirnar, en stefnan er rjett fyrir það, og henni hefi jeg altaf haldið fram. Þetta er mismunurinn hjá háttv. frsm. (J. J.) og mjer. Svo framarlega sem ákveðið er, að landið eigi forkaupsrjett að öllum jörðum, og skylt að kaupa, þá sleppa menn við alla þessa vafninga, og þá tefst salan ekkert. — Jeg vil því skora á hv. nefnd að taka þessa stefnu hreina, ef hún hefir vakað fyrir henni.