21.08.1917
Neðri deild: 39. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 920 í C-deild Alþingistíðinda. (3260)

159. mál, forkaupsréttur á jörðum

Frsm. (Jón Jónsson):

Mjer finst hv. 2. þm. Árn. (E. A.) líta einstrengingslega á þetta mál. Mjer finst augljóst, að það geti verið beinn hagur, að einstakir menn nái í jarðir, ef svo er, að jarðir stígi í verði og haldi áfram að stíga í verði. Það er á það að líta, að jörð getur haldið áfram að stíga í verði þangað til hún er orðin hálfu meira virði en þegar hún var keypt. Þetta getur vel komið fyrir, ef landbúnaðurinn á nokkra framtíð fyrir sjer. Þess vegna er ekki útilokað, að einstakir menn sækist eftir jörðunum til að selja þær svo aftur, hverjum sem best býður, með miklum hagnaði. Um kauprjett sveitarfjelaga er það að segja, að mjög æskilegt væri, að þau gerðu meira að því að kaupa jarðir en þau gera. Í jörðunum eiga sveitarfjelögin örugga innstæðu og geta búist við margvíslegum hag af því. Það er betur sjeð fyrir jörðunum með því, að sveitarfjelögin hafi þær, en að þær gangi kaupum og sölum milli hinna og þessara. Jeg veit til þess, að slík kaup hafa átt sjer stað í Norður-Múlasýslu, og blandast mjer ekki hugur um, að það er vel ráðið, að sveitarfjelögin nái í jarðir, er gott tækifæri býðst.

Um kaup landssjóðs gat jeg þess áður, að ekki væri mikið um þau kaup að ræða, en mjer finst ekkert athugavert, þótt landssjóður keypti jörð, er hann samkvæmt þjóðjarðasölulögunum er skyldur til að selja aftur. Það er betra, að landsstjórnin nái í þær en útlendingar eða braskarar. Þær eru þó í rjettum böndum meðan landssjóður hefir þær.

Svo getur líka vel farið, að þjóðjarðasölulögin verði afnumin þegar minst varir. Mjer heyrist, að menn sjeu heldur farnir að kippa að sjer hendinni með að selja þjóðjarðirnar, og það er ekki að vita, hve nær sú stefna verður ráðandi hjer í þinginu.