28.08.1917
Neðri deild: 45. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 922 í C-deild Alþingistíðinda. (3265)

159. mál, forkaupsréttur á jörðum

Einar Arnórsson:

Það er nú búið að ræða þetta mál allmikið, bæði við 1. umr., áður en þessum frv. var slengt saman í eitt, og eins eftir að landbúnaðarnefnd hafði gert það. En jeg sje nú, að nefndinni hefir ekki þóknast að lagfæra þá galla, sem jeg sýndi fram á að væru á þessu frv. enn. En hún gerir það væntanlega síðar.

I. kafli frv. þessa er lögin frá 1905, um forkaupsrjett leiguliða, og er ekkert sjerstakt um hann að segja. En II. og III. kafli er mjög varhugaverður, eins og jeg hefi áður vikið að.

Þessi deild hefir hjer á þessu þingi felt frv. stjórnarinnar um frestun þjóð- og kirkjujarðasölu, og þar með óbeinlínis skipað stjórninni að selja jarðir landsins framvegis á sama hátt sem hingað til. En með þessu frv. er stjórninni skipað, ef það verður að lögum, að kaupa jarðir, eða í öllu falli veitt heimild til þess. Og sjálfsagt mundi þingið þá illa kunna því, ef stjórnin notaði þessa heimild ekki nokkuð. Og þegar svo stjórnin hefði keypt jarðir samkvæmt frv. þessu, ef að lögum verður, fyrir það verð, sem seljandi setur á þær og aðrir bjóða honum, þá yrði landssjóður aftur að selja þær, samkvæmt lögunum um sölu þjóðjarða og kirkjujarða, eftir mati og með þar nefndum borgunarskilmálum. Þegar landssjóður keypti jarðir, þá yrði hann annaðhvort að greiða þær þegar að fullu, eða gefa út skuldabrjef og greiða fulla vexti af eftirstöðvum kaupverðsins. En af þessu gæti landssjóði sýnilega stafað stórtap. Ef stefna deildarinnar væri sú, að landssjóður skyldi eiga sem flestar, eða helst allar, jarðeignir í landinu, þá væri algerlega hugsunarrjett að setja slík ákvæði, sem í III. kafla frv. þessa felast. En þar sem stefna deildarinnar er þveröfug við þá stefnu, þá verður hrein hringavitleysa úr þessu, eða það, sem á máli rökfræðinnar heitir „circulus vitiosus“.

Hv. landbúnaðarnefnd svarar því til, að landssjóður muni lítt nota forkaupsrjett sinn. Að vísu er því óhættara við tapi, sem jeg áður greindi, ef svo reynist En sama verður óhagræðið fyrir seljendur fyrir því, tíminn sami, sem þeir verða að bíða eftir því að fá komið eignum sínum í verð. Og undarlegt er að heyra löggjafann hugga sjálfan sig og aðra með því, að vonandi verði lög hans slík sem þessi lítið notuð.

Áður hefi jeg bent á ýmsa galla á frv., auk stefnunnar, sem í því felst, eða rjettara sagt stefnuleysisins. Hjer skal jeg enn bæta við dæmi úr 16. gr. Þar er svo tiltekið: „Hreppstjórum er skylt að hafa eftirlit með því, að fyrirmælum 12. gr. sje hlýtt. Ef út af er brugðið, skal hreppstjóri tafarlaust tilkynna það sýslumanni“. Meiningin er, að hreppstjórar eiga að sjá um það, að einstaklingar bjóði landssjóði þennan forkaupsrjett. En hvernig í ósköpunum eiga hreppstjórar að vita um þetta? Er ætlast til þess að hreppstjórar gangi milli manna í sveitinni og grenslist eftir, hvort nokkur ætli að selja jörð? Og þótt nú svo væri, þá er ekki víst, að það dygði, því að það er ekki gefinn hlutur, að eigandi jarðarinnar búi á jörðinni. Hann getur svo hæglega búið í alt annari sveit, eða öðrum landsfjórðungi. Og hvernig á vesalings hreppstjórinn þá að sjá um, að þessu verði hlýtt? — Hjer er ætlast til altof mikils af hreppstjóranum, og ef jeg væri í hans sporum, þá mundi jeg fljótt þakka fyrir— Svo er hjer brtt. við 15. gr., á þgskj., 468. Ef hún yrði samþykt, þá mundi það gera rjett seljanda enn óhagfeldari en eftir frv. óbreyttu. Brtt. þessi fer fram á, að í staðinn fyrir „frá því að kaup voru gerð“ síðast í 15. gr. komi: „frá því að kaup voru þinglesin“. — Afleiðingin af þessu yrði sú, að það yrði enn lengur óvíst, hvort rifting færi fram eða eigi. Og skal jeg taka dæmi. Ef jeg t, d. kaupi jörð skömmu eftir fardaga, en get ekki látið þinglesa kaupin fyr en á næsta manntalsþingi, þá getur það beðið 12 mán., og svo bætast við hinir tilteknu 6 mán. Það verða þá samtals 18 mán., sem eiganda er haldið í óvissu um, hvort landssjóður ætlar að nota riftingarrjett sinn eða ekki. — í 6. gr., sem er tekin úr lögum frá 1905, eru ákvæðin dálítið öðruvísi. Þar er fresturinn reiknaður 6 mán. frá þeim tíma, sem sá fær að vita um misfelluna, sem hefir orðið fyrir misrjetti. — Þessir gallar, sem jeg benti á í 13. gr. við 1. umr. málsins, hafa ekki verið lagaðir að heldur. En auðvitað má gera það til 3. umr., svo framarlega sem frv. lifir svo lengi. Eins og jeg hefi tekið fram áður þá fyndist mjer ástæða til að heimila landssjóði forkaupsrjett, ef útlendingar eiga hlut að máli, til að koma í veg fyrir, að þeir nái jörðum á sitt vald eftirlitslaust. — Jeg álít því ekki rjett, að hv. deild dauðadæmi málið að svo komnu, og leyfi mjer því að bera fram rökstudda dagskrá, sem hljóðar svo:

Í þeirri von, að landsstjórnin athugi, hvort takast megi og hvort rjett sje að leggja almenna forkaupsrjettarkvöð á jarðeignir á landi hjer, og undirbúi, ef fært þykir, frumvarp um það fyrir næsta Alþingi, tekur deildin til meðferðar næsta mál á dagskrá.