28.08.1917
Neðri deild: 45. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 929 í C-deild Alþingistíðinda. (3268)

159. mál, forkaupsréttur á jörðum

Sveinn Ólafsson:

Jeg stend upp til þess að mæla með þeirri rökstuddu dagakrá, sem háttv. 2, þm. Árn. (E. Á.) hefir borið fram. Jeg held, að í þessu ákv. sje ekki mikil rjettarbót, og það hefir ljóst komið fram, að um það eru að minsta kosti skiftar skoðanir. Ef þetta frv. er borið saman við forkaupsrjettarlögin frá 1905, sjest, að 2 fyrri kaflar frv. eru teknir nær orðrjettir upp úr þeim lögum, að eins dálitlar breytingar á stöku stað, en þær eru ekki til bóta. Jeg vil benda á t.d. að 8. gr. er ekki annað en óþörf endurtekning á 3. gr. Í þessum 2 köflum er ekkert nýtt, sem ekki er til í gildandi lögum, og því engin rjettarbót í þeim, en um 3. kaflann verður það sagt, án þess að taka djúpt í árinni, að hann er mjög athugaverður. Ákvæði hans munu reynast mörg lítt framkvæmanleg, svo sem ákvæðið um, að hreppstjórar skuli hafa eftirlit með því, að landssjóði sjeu jafnan boðin kaup á jörðum. Þetta hefir háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) tekið fram. Erfiðleikarnir, sem frv. bakar þeim jarðeigendum, er vilja selja, eru og mjög fráfælandi. Það mætti t. d. gera ráð fyrir því, að maður þyrfti, vegna ábyrgðar eða víxlskuldar, að koma jörð sinni fljótt í peninga. Hann yrði þá fyrst að ganga frá manni til manns, og þegar hann svo loks kæmist til landssjóðs, gæti skeð, að skuldheimtumaðurinn yrði þrotinn að þolinmæði og jarðeigandinn kominn í skuldafangelsið, áður en landsstjórnin hefði samþykt kaupin.

Þá finst mjer það athugavert við 12. gr., að eftir henni virðist jarðeigandi skyldur til að bjóða landssjóði jörðina, að fenginni neitun hreppsfjelags um kaup, jafnvel þótt hann þá hefði sjeð sig um hönd og vildi hætta við að selja og hefði bætt úr fjárvandræðum sínum á annan hátt. Ef hann eitt sinn hefir farið á flot með sölutilboð, má hann ekki hætta því, eftir þessari grein, og verður að bjóða landssjóði. Mjer finst verulega athugavert að troða slíku vandræðaákvæði inn í löggjöfina.

Held jeg því langrjettast að samþykkja ekki frv., en tryggja það, að málið verði vel athugað, áður en það verður lagt fyrir Alþingi í nýrri mynd. Hallast jeg því að dagskránni.