28.08.1917
Neðri deild: 45. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 938 í C-deild Alþingistíðinda. (3272)

159. mál, forkaupsréttur á jörðum

Frsm. (Jón Jónsson):

Hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) sagði, að ekkert nýtt væri tekið fram í 2. kafla þessa frv. Jeg vil þó benda hv. þm. á það, að það er einmitt í 2. kafla laganna, sem það er tekið fram, að takmarkaður sje rjetturinn til að selja jarðir.

Jeg skal þakka hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.), hvernig hann tekur undir þetta mál. Það sýnir það, hve sanngjarnlega hann lítur á. málið.

Það er alveg rjett, að brtt. hv. 2. þm. S.-M. (B. St.) getur tafið fyrir, og sje jeg, að hún verður til skemda, ef hún verður samþykt.

Hv. 2. þm. Árn. (E. A.) gerði lítið úr eftirliti því, sem hreppstjórar eiga að hafa samkvæmt frv. Jeg hygg, að þeir eigi mjög auðvelt með að hafa þetta eftirlit, því að þeir munu hver um sig vita þegar jörð er seld í þeirra hreppi. Hreppstjórinn þarf ekki að vita annað en það, hvort jörðin er seld eða ekki og hvort eigandinn sest á jörðina.

Jeg get ekki fallist á, að það sje neitt skoplegt, þó að 3. kafli laganna sje samþyktur. Þar er ekki annað nýmæli en það, að ef einstakir menn eða sveitarfjelög vilja ekki kaupa jörðina með þeim skyldum, sem ákveðnar eru í frv., þá skuli landssjóður hafa forkaupsrjettinn. Þetta ákvæði er einungis frekari trygging fyrir því, að lögin nái tilgangi sínum, að auka sjálfsábúð í landinu, en ekki ætlast til, að landssjóður fari að sækjast eftir jörðum. Hitt get jeg skilið, að sumir vilji ekki láta landssjóð vera síðasta liðinn. En það var ætlun nefndarinnar.

Því hefir verið haldið fram, að frv. gengi ofnærri eignarrjetti manna. Þetta hlýtur að vera misskilningur, því að enginn er skyldaður til að selja eign sína, og sá, sem forkaupsrjettinn fær, verður að borga fyrir jörðina það, sem aðrir bjóða. Jeg verð að álíta, að þetta frv. sje svo vel athugað, að óhætt sje að láta það ganga til Ed. Við fáum það þá til athugunar aftur, ef hún vill breyta því. Enda er 3. umr. eftir hjer í deildinni, svo að koma má enn fram breytingum á frv.

Jeg verð því að leggja það eindregið til, að dagskráin sje feld.