18.08.1917
Neðri deild: 37. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 947 í C-deild Alþingistíðinda. (3276)

160. mál, lántaka til að kaupa og hagnýta fossa

Sveinn Ólafsson:

Jeg er hv. þm. Dala. (B. J.) mjög þakklátur fyrir þessa fallegu hugmynd, sem hann kemur hjer fram með, og þá trú, sem lýsti sjer í orðum hans, á framtíð landsins. Hún ætti að vera öðrum til styrktar og eftirbreytni. Um mig er það að segja, að jeg hefi lengi verið snortinn af þessari sömu trú og hann. Og þakklæti mitt til hv. flm. (B. J.) er engu minna fyrir það, þótt jeg geti ekki verið honum alveg sammála í öllum atriðum. Það getur komið af ýmsu öðru en vantrú á landinu og framtíðarmöguleikum þess. Mannfæðin hjer og menningarástandið torvelda mjög framkvæmd slíkrar hugmyndar. En það kannast jeg við, að hugmyndin er bæði falleg og vel þess verð, að henni sje gaumur gefinn. — Jeg álít dálítið hæpið það, sem hv. þm. Dala. (B. J.) sagði um hagnaðinn af þessu fyrirtæki. Um það má spá, en ekkert fullyrða og inn í framtíðina sjáum vjer skamt. En engum blandast hugur um það, að hjer geti verið um álitlega auðsuppsprettu að ræða, auðsuppsprettur jafnvel, sem ekki verði með tölum taldar. Hestaflafjöldi vatnsfallanna okkar er ekki að eina meiri en samanlagt afl manna og hesta allra, sem á landinu eru, heldur margfaldur við afl allra þeirra kynslóða, sem á landinu hafa lifað.

Það er sjerstaklega eitt, sem jeg hygg að muni verða átakanlegur þröskuldur í vegi fyrir þessu fyrirtæki, og það er vöntun sjerfróðra brautryðjenda. Hv. þm. Dala. (B. J.) hefir hjer fyrir augum samskonar fyrirtæki sem komið var í framkvæmd í Noregi fyrir nokkrum árum, fyrir einstakan dugnað og framsýni tveggja manna, sem varla eiga sína líka, þótt víða væri leitað. Þessir menn voru þeir prófessor Birkeland og verkfræðingur Eide. Nú er sá hængur á hjá okkur, að við eigum engan mann til að bera saman við Eide, og jafnvel þó að við förum til Þýskalands, þá hygg jeg, að hann muni verða vandfundinn. Annars mun prófessor Birkeland hafa átt fult eins mikinn þátt í þessu fyrirtæki, því að það var hann, sem fyrstur átti hugmyndina, en Eide, sem annaðist verkið og sá um fjármálin. — Það er enn fremur annað í þessu máli, sem jeg vildi hafa tekið fram. Hjer er gert ráð fyrir, að þetta fyrirtæki verði með líku móti og þar var, fyrirtækið bygt á saltpjetursframleiðslu. En það þarf ekki endilega að vera það hagkvæmasta og besta. Það getur verið hjer um fleiri iðnaðargreinar að ræða, sem ekki yrðu jafnafskaplega kostnaðarsamar og saltpjetursiðnaður. Mjer hefir t. d. dottið í hug pappírsiðnaður úr grasi. Þegar í nánustu framtíð verður farið að rækta gras á Suðurlandsundirlendinu í verulega stórum stíl, þá hygg jeg, að þetta mundi verða öllu ljettara viðfangs, sjerstaklega fyrir þá sök, að það er miklu viðráðanlegra fyrirtæki, sem má koma í framkvæmd fyrir miklu minna fje. Auk þess álít jeg, að þetta standi okkur nær, og slík framleiðsla mundi engu síður vera gagnleg og arðberandi.

Jeg hefi svo ekki fleira að taka fram, en vil bæta því við, að áður en jafnmikilvægu máli og þessu er ráðið til lykta hjer á þingi, þá er sjálfsagt, að það sje áður gaumgæfilega athugað frá öllum hliðum. Og bestu leiðina til þess hygg jeg vera að skipa sjerstaka nefnd, t. d. 9 manna nefnd, sem hefði nægan tíma og gæti látið uppi álit sitt fyrir þinglok. Jeg álít þetta rjettara en selja málið í fjárhagsnefnd, sem, eins og við allir vitum, hefir mjög mikið að starfa. Þetta er eitthvert stærsta málið, er hjer liggur fyrir, og óviðurkvæmilegt að afgreiða það eftir ónákvæmu og fljóthugsuðu nefndaráliti eða fella það af handahófi. Jeg vildi, sem sagt, kjósa, að flokkur manna gæti fjallað um málið í góðu næði, um nokkurn tíma, jafnvel þótt úrslit fengjust ekki á þessu þingi.