18.08.1917
Neðri deild: 37. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 949 í C-deild Alþingistíðinda. (3277)

160. mál, lántaka til að kaupa og hagnýta fossa

Flm. (Bjarni Jónsson):

Jeg er hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) þakklátur fyrir þær góðu undirtektir, sem þetta mál hefir hlotið hjá honum. En annars stendur mjer „persónulega“ alveg á sama, hvernig hv. þm. fara með það. Jeg legg þetta mál ekki hjer fyrir þingið af því, að jeg vilji sýnast vitrari en aðrir menn, svo að þeir mega drepa það þegar í stað fyrir mjer, svo framarlega sem þeir geta gert það með góðri samvisku. En það verð jeg að segja, að sá verður ekki mikill hershöfðingi, sem altaf tvístígur í sama farinu og aldrei þorir að stíga fyrsta sporið til sóknar. Og

jeg get ekki á neinn hátt sjeð, að nokkur hætta geti af því stafað að samþykkja þetta frv. undir eins óbreytt. En hitt getur aftur á móti verið hættulegt á þessum tímum fyrir okkar stjórn, að hafa ekki samskonar heimild, og þetta frv. gefur, í höndum sjer, ef á þyrfti að halda, því að ásælni útlendinga á hjerlenda fossa getur aukist hve nær sem vera skal, og þá er ekki víst, að stjórnin þori að taka upp þá rjettu stefnu. '

Menn geta hrópað að stjórninni og sagt, að engin meining sje í því að láta okkar ágætu fossa renna og renna endalaust, án þess að hafa nokkur not af. Þesskonar strauma í okkar þjóðfjelagi ættum við allir að þekkja mæta vel. Og þá er ekki verið að spyrja, hvar hagnaðurinn lendi. Jeg efast ekki um, að það mundi þegar í stað verða talið íslenskt fyrirtæki, ef útlendingar færu að reka iðnað við okkar fossa, jafnvel þótt Íslendingar kæmu þar hvergi nærri. Þetta þekkjum við allir svo vel, því að við höfum þess dæmi áður. Þess vegna á að setja þetta mál í nefnd nú þegar og samþ. síðan hiklaust.