03.09.1917
Neðri deild: 50. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 960 í C-deild Alþingistíðinda. (3293)

176. mál, vitabyggingar

Magnús Pjetursson:

Jeg er þakklátur háttv. nefnd fyrir liðlegar undirtektir undir brtt. mína, enda er ekki ástæða til annars, með því að hún er sprottin af því, að um þetta vitastæði hafa staðið deilur, bæði milli sjómanna innbyrðis og milli vitamálastjórans og sjómanna. Þess vegna er það lagt til í brtt, að vitastæðið sje óbundið. Annars vil jeg benda á það, að prentvilla hefir slæðst inn; staðurinn heitir ekki Krossanes, heldur Krossnes.

Brtt. á þgskj. 684 tek jeg aftur, eins og hv. frsm. (M. Ó.) sagði.

Annars kemur mjer mjög á óvart brtt. á þgskj. 664. Jeg hjelt eins og hv. frsm. (M.Ó.), að frv. ætti við Reykjanes við Húnaflóa, en ekki Reykjanes við Faxaflóa. Eins og hv. frsm. (M. Ó.) gat um þá er mjög þokusælt á Reykjanesi við Húnaflóa, og því þörf þar á þokulúðri, jafnvel þokusælasti staður á landinu, ef til vill að Austfjörðum fráskildum. En hitt er ekki kunnugt, að þokusælt sje hjer á Reykjanesi syðra, að minsta kosti ekki svo, að 2 þokulúðra þurfi á svo nánu svæði, sem hjer er um að ræða eftir frv. En ef þess þyrfti, þá væri rjettara að bæta því inn í, en ekki hafa Reykjanesskifti. Þess vegna er jeg á móti þeirri brtt.