03.09.1917
Neðri deild: 50. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 961 í C-deild Alþingistíðinda. (3294)

176. mál, vitabyggingar

Frsm. (Matthías Ólafsson):

Jeg vefengi ekki orð hv. 1. þm. G.-K. (B. K.), er hann hafði eftir hafnsögumanninum á „Islands Falk“, sem er alkunnur heiðursmaður, og leggur það eitt til málanna, sem hann telur rjettast. En hann hefir ekki sagt neitt annað en það, sem í frv. felst. Það er einmitt, að ef landið á að verða vel vitað, þá á að taka frv. En hv. 1. þm. G.-K. (B. K.) sagði, að landið gæti ekki borið þessi útgjöld. Það er vitanlega alveg rjett. En til þess að fá þessi gæði svo fljótt sem unt er, þá er ekki heldur til þess að ætlast, að landssjóður beri útgjöldin, fyr en þá ef til vill seint og síðar meir.

Hv. 1. þm. G.-K. (B. K.) færði það sem aðalástæðu móti þessu, að það mundi rýra álit landsins út í frá og veikja lánstraust þess. — En ef lánveitendur færu nokkuð að grenslast eftir eða spyrja um þetta, mundi þá ekki hv. þm. (B. K.) hafa orðið að svara, að það væru svo margir vitar óbygðir, vegna þess, að landssjóður hefði ekki getað staðið straum af fleiri byggingum. Og ekki yrði það til að styrkja lánstraustið. — Eins og tekið er fram í athugasemdum við frv. þá geta vitamálin hæglega borið sig sjálf, og þá þarf landssjóður ekki að eyða öðrum tekjum í það. Mjer er þetta talsverf kappsmál, að vitamálin sjeu aðskilin frá öðrum málum landssjóðs, til þess að vitabyggingar gangi ekki altof seint. Það væri mikið unnið við það að koma vitamálunum í gott horf sem allra fyrst, svo að siglingar geti orðið sem aðgengilegastar að unt er, þegar þær eru ekki lengur heftar af áhrifum stríðsins. — Það hefir oft verið talað um það, að það væri óheppilegt að láta þá menn, sem lítið vit hafa á þessum málum, ráða með atkvæðum sínum, hvort eigi að byggja þennan og þennan vita eða ekki. Og er þetta alveg rjett athugað. Því að það er ekki hægt að ætlast til þess, að hv. þm., sem nú eru flestir landbændur, geti haft jafnmikið vit á, hvar mest er þörf á vitum, og þeir menn, sem þau mál stunda mest. Þess vegna er það í alla staði mjög óheppilegt að sækja það undir þingið í hvert sinn er á að reisa nýjan vita.

Eins og jeg hefi tekið fram þá geta þessi mál best borið sig alveg óháð landssjóði. Og mjer er næst að halda, að efnahag landsins, og þar með lánstrausti, mundi betur borgið með því móti, því að af þessu mundi aftur leiða það, að vitum mundi fjölga, og þá yrði öllum siglingum hjer við land miklu minni hætta búin. Þetta sannar því einmitt það þveröfuga við það, sem hv. 1. þm. G.-K. (B. K.) vildi sanna.