16.07.1917
Neðri deild: 11. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 968 í C-deild Alþingistíðinda. (3301)

56. mál, einkasala á sementi

Flm. (Einar Jónsson):

Jeg skil ekki vel í afstöðu hv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) til frv., að hann, eins og hann lítur á einkasölumálið, skuli vera á móti því. (M. Ó.: Jeg er ekki á móti því). Sá, sem ekki er. með mjer, er á móti mjer.

Það er ekki tillaga mín, að stjórnin fái einkasöluheimild 4 vörutegundum, öðru nær. En jeg mundi fella mig við, þótt einkasala yrði heimiluð á kolum, salti, steinolíu og sementi. Þetta eru alt miklar nauðsynjavörur, sem þurfa að fást með góðu verði og vel vandaðar.

Ekki var það rjett hjá hv. 2. þm. N.M. (Þorst. J.), að svo vandasamt væri að geyma sementið, að þess vegna væri ókleift að aðhyllast þá leið, sem hjer er farið fram á; það er ekki örðugra að geyma það vel en aðrar vörur. Og ekki var það nema hálfrjett hjá hv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.), að landsstjórninni sje ekki ætlaður neinn hagur af einkasölunni. Þótt landssjóður taki ekki beinar tekjur af sementseinokuninni, ætti honum að vera nóg, ef almenningur hefir gott af, auk þess sem landssjóður þarf sjálfur, nú orðið, að annast um ýms stórvirki, sem sement er brúkað í, og græddi því einnig á þann hátt. Jeg er hræddur um, að hv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) haldi, að jeg sje að gera þetta fyrir landbúnaðinn, en ekki sjávarútveginn; en svo er ekki. Sjávarútvegurinn þarf ekki síður sements með. Og jeg vona, að það verði ekki eins skemt eða dýrt og áður, ef landsstjórnin hefir einkasölu. Samböndin verða venjulega því betri í verslun, sem um stærri kaup er að ræða.

Hv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) vildi, að frv. gengi til sjerstakrar nefndar. En jeg sje ekki þörf til þess. Best væri, að það gengi til sömu nefndar og lík frv. hafa áður gengið. Jeg geri það ekki að kappsmáli, en till. mín er, að frv. gangi til fjárhagsnefndar.