22.08.1917
Neðri deild: 40. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 969 í C-deild Alþingistíðinda. (3305)

56. mál, einkasala á sementi

Frsm. (Þorsteinn Jónsson):

Fjárhagsnefnd hefir athugað þetta frv. og komist að þeirri niðurstöðu, að ekki beri að samþykkja það nú. Nefndin hefir áður látið í ljós þá skoðun sína, að ekki beri á þessu þingi að lögleiða einkasölu á öðru en steinolíu, og er þetta því í samræmi við þá skoðun. Ástæðurnar fyrir þessu hafa þrásinnis komið hjer fram, en ein ástæða er þó í viðbót um þetta frv., sem ekki hefir verið nefnd, sem sje sú, að landssjóði bætast engar tekjur af frv., ef það yrði samþykt, eins og það liggur fyrir. í annan stað er engin brýn nauðsyn á einkasölu á sementi, með því að sala þess er ekki í höndum einokunarfélaga, sem okri á því, eins og á sjer stað um steinolíuna. Að öðru leyti ljet jeg þess getið við 1. umr. frv., að jeg teldi ekki einkasölu heppilega á sementi, með því að afarerfitt væri að geyma það, svo að vel væri.

Af því, að málið var svo ítarlega rætt við 1. umr., býst jeg ekki við, að ástæða sje til að fjölyrða um það nú að öðru leyti.