05.07.1917
Neðri deild: 3. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 736 í B-deild Alþingistíðinda. (332)

13. mál, einkasöluheimild landsstjórnarinnar á steinolíu

Fjármálaráðherra (B. K.):

Frv. þetta er fram komið samkvæmt ósk síðasta þings. Jeg gæti látið mjer nægja að vísa til athugasemdanna við það, en vil þó að eins fara nokkrum orðum um það.

Frv. segir sjálft til efnisins. Það felur í sjer heimild fyrir landsstjórnina til

þess að taka að sjer alla steinolíuverslun landsins. Sennilega yrði þeirri verslun þá hagað svo, að landið ræki að eins stórsölu. Auðvitað yrði þá um leið að setja hámarksverð á olíuna. Það mun engum dyljast, að hjer er um mjög umfangsmikið starf að ræða. En til þess, að verslunin geti komið að fullum notum og varan orðið sem ódýrust, lítur stjórnin svo á, að gefa yrði versluninni nokkuð rúmt svið, svo að henni yrði hagað eftir því, sem arðsamast þykir, t. d. ef á þarf að halda með skipakaup, húsakaup o. s. frv. Þetta er gert til þess, að verslunin hafi sem óbundnastar hendur, svo að arðurinn lendi sem mestur hjá henni.

Það getur vel verið álitamál, hvað hár skatturinn skuli vera, sem sumpart er ætlaður til tryggingar, sumpart til tekna landssjóði. Stjórnin hefir nú sett hann 6%, en auðvitað má altaf víkja því við, ef mönnum líst svo. Helst væri þá, að mönnum kynni að þykja þetta oflágt gjald.

Það er enn fremur áríðandi, að ekki verði byrjað á þessari verslun fyr en stjórnin á það víst að fá nægar birgðir handa landinu af steinolíu, og yrði tryggingin fyrir því að felast annaðhvort í bankatryggingu hjer á staðnum eða verðbrjefum, sem stjórnin gæti einnig haft aðgang að hjer. Með þessu móti væri trygt, að viðskiftanauturinn segði ekki upp versluninni fyrirvaralítið.

Enn fremur geri jeg ráð fyrir því, að ekki verði komist hjá að setja upp olíugeyma hjer á landi, að minsta kosti 1, því að altaf þarf að vera til varaforði, t. d. einn skipsfarmur. Að öðru leyti mundi heppilegast að flytja olíuna í tunnum.

Í þetta sinn sje jeg ekki ástæðu til þess að fara fleirum orðum um frv.; læt mjer nægja að vísa til athugasemdanna við það, enda er málið ofureinfalt. Legg jeg til, að frumv. verði vísað til fjárhagsnefndar.