10.08.1917
Neðri deild: 30. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 977 í C-deild Alþingistíðinda. (3322)

84. mál, forkaupsréttur leiguliða o. fl.

Frsm. (Jón Jónsson):

Landbúnaðarnefndin hefir lítið breytt frv. því, sem henni var fengið til athugunar, að efni til, en hún leggur til, að það verði gert að sjerstökum lögum. Annars eru breytingarnar aðallega orðabreytingar, en efnið hið sama. Það fjallar um það, hvernig fara skuli um sjálfsábúðarjarðir, sem ganga kaupum og sölum. Hingað til hafa engin lög verið til um það, og eigendur verið sjálfráðir um, hverjum þeir seldu, hvort heldur væntanlegum ábúanda eða öðrum. Nefndin er sannfærð um, að hjer þarf breytinga, og að nauðsyn beri til að fyrirgirða, að margar jarðir geti safnast á eina hönd, en stuðla að því, að ábúendur eigi ábúðarjarðir sínar, því að á þann veg má vænta, að þeim verði mestur sómi sýndur.

Jeg skal geta þess, að í nefndarálitinu er meinleg villa. Þar stendur tún fyrir bú.