10.08.1917
Neðri deild: 30. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 980 í C-deild Alþingistíðinda. (3327)

84. mál, forkaupsréttur leiguliða o. fl.

Magnús Guðmundsson:

Jeg vil leyfa mjer að styðja till. hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) Það er heppilegast að fá í ein lög öll ákvæðin um forkaupsrjett á jörðum, og það ætti ekki að vera mikil fyrirhöfn að draga þau saman í eitt frv. Jeg vil beina því til háttv. landbúnaðarnefndar, hvort hún treysti sjer ekki til þessa, og ef hún vill sinna því, að hún fái tekið málið út af dagskrá. Þess óska jeg því fremur, þar sem mjer finst, því betur sem jeg hugsa um málið, að frv. þetta þurfi að sjálfsögðu að taka breytingum. Jeg tel þetta ófært og hreint stjórnarskrárbrot, sem hjer er farið fram á, því að það getur komið fyrir, að seljandi sje neyddur til að selja jörð sína þeim, sem lægra býður, ef hann ætlar að taka jörðina til ábúðar eða sitja með hana óselda að öðrum kosti, eins og það er óheppilegt, að ábúandi sem vill selja ábúðarjörð sína, verði við söluna að flytja af henni vegna lagaákvæða, þótt bæði hann og kaupandi vildu, að hann byggi þar áfram.