02.08.1917
Neðri deild: 23. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 982 í C-deild Alþingistíðinda. (3333)

98. mál, forkaupsréttur landssjóðs á jörðum

Flm. (Sigurður Sigurðsson):

Samskonar frv. og þetta lá fyrir þingi 1912, og var þá samþykt í þessari hv. deild, en ekki útrætt í Ed. Enn var frv. líks efnis á ferðinni 1915, en var þá felt hjer í deildinni. Ástæðan til þess, að jeg kem með þetta mál nú, er sú, að jeg álít það þess vert, að því sje gaumur gefinn og tel nauðsynlegt, að sett verði lög um forkaupsrjett landssjóðs á jörðum. Þótt málið færi svona 1915, langar mig til að vita afstöðu til þess í þinginu nú, eftir nýafstaðnar kosningar. Jeg lít svo á, að þótt frv. um frestun á sölu þjóð- og kirkjujarða væri felt í gær, ætti það ekki að vera því til fyrirstöðu, að þetta mál næði fram að ganga, því að þau tvö mál standa ekki í neinu beinu sambandi hvort við annað. Í frv. þessu er reynt að taka tillit til þeirra aðfinninga, sem komu fram við samskonar frv. 1912 og 1915. Jeg held því, að tekið sje tillit til fram kominna andmæla svo sem hægt er.

Jeg tel rjett að vísa þessu máli til landbúnaðarnefndar, að lokinni þessari 1. umr. Sje jeg svo ekki ástæðu til að fara fleirum orðum um mál þetta að sinni.