05.07.1917
Neðri deild: 3. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 741 í B-deild Alþingistíðinda. (334)

13. mál, einkasöluheimild landsstjórnarinnar á steinolíu

Jörundur Brynjólfsson:

Jeg ætla að eins að segja nokkur orð, áður en frv. verður vísað til nefndar. Raunar hefir háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) bent á nokkur atriði, sem þetta mál varða.

Jeg ætla þá fyrst að víkja að ákvæðinu, sem heimilar landsstjórninni að veita öðrum fjelögum leyfi til innflutnings á steinolíu. Jeg býst við, að það hafi vakað fyrir stjórninni, að ef þetta fyrirkomulag reyndist erfitt, þá mætti hún fela verslunina öðrum. En jeg sje ekki neina ástæðu til þess að hafa þetta ákvæði í lögunum. Það væri óeðlilegt, ef stjórnin hefði ekki betri tök en aðrir á því að koma á hagkvæmri verslun á þessari vöru. Það hefir komið í ljós, að stjórninni hefir tekist það, sem einstökum mönnum og jafnvel sterkum fjelögum hefir reynst ókleift. Þess vegna er þetta ákvæði óþarft, og getur jafnvel verið til ills, ef t. d. stjórn sæti að völdum, sem óvinveitt væri þessu fyrirkomulagi; hún gæti þá smeygt sjer undir þetta ákvæði, og það leitt til verri kaupa, og við það versnað hagur landssjóðs. Ef til vill væri þó ástæða til þessa ákvæðis meðan ófriðurinn stendur, en því mætti þá koma fyrir í athugasemd aftan við frv. Jeg segi ekki þetta af því, að jeg vantreysti núverandi stjórn, síður en svo, en allur er varinn góður.

Háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) drap á álag landsstjórnarinnar á olíuna, og þótti honum það helst til hátt. Þetta álag, 6%, finst mjer svo lítið, að ófært sje að hafa það minna. Okkur greinir á um það, að hann vill ekki láta leggja neitt á þessa vöru, en landssjóður selji hana án nokkurs ábata. Jeg er á annari skoðun. Ef hægt væri að sameina það tvent, að almenningur fengi vöruna fyrir minna verð en áður, og jafnframt, að landssjóður legði nokkuð á vöruna, og með því aflaði sjer tekna, finst mjer, að talsvert væri unnið, og að almenningur, bæði til sjávar og sveita, mætti vel una við þau málalok. Þeir tekjustofnar, sem landssjóður hefir nú, eru ekki rjettlátari. Það er augljóst, að einhversstaðar verður landssjóður að fá tekjur, og þá er að leita til þess að sanngjörnum leiðum. Þessi leið ætti að vera sjálfsögð, því að almenningur misti einkis í við hana, en landssjóður nyti góðs af.

En jeg er algerlega á móti prósentum í nokkurri mynd, því að það er ranglát leið að láta almenning borga mest þegar varan er dýrust, og hann þar af leiðandi stendur sig verst við það. Jeg vil því fara þá leið, sem við bentum á á síðasta þingi, að lagt sje á vörumagnið, en ekki vöruverðið, t. d. 2 aura á lítrann; það verður sama sem 4 kr. á tunnuna. Það er undir flestum kringumstæðum ekki hátt, og hækkar ekki, þótt varan verði dýrari. Gróði landssjóðs minkar þá ekki heldur við það, er hann fær góð innkaup.

Jeg held, að sjómennirnir íslensku hefðu ekki haft ástæðu til að kvarta, ef landsstjórnin hefði haft olíuverslunina í sínum höndum, og þótt hún hefði ofurlítið lagt á hana sjer í hag. Þeir hefðu grætt samt stórkostlega, þótt landssjóður hefði orðið nokkurra tekna aðnjótandi.

Það ákvæði í þessu frv., sem fer í þá átt, að landsstjórnin noti fyrst heimild þessa, er hún hefir fengið tryggingu fyrir því, að það fjelag, sem hún skiftir við, standi við þá samninga, er stjórnin gerir, er auðvitað gott og gagnlegt, en þó finst mjer það nokkuð einskorðað. Ef stjórninni hepnast ekki að fá þá tryggingu (fjárupphæð), sem nefnd er í frumvarpinu, er henni eftir þessu frv. eiginlega ekki heimilt að taka að sjer olíuverslunina. Jeg held, að það væri æskilegast, að tekið væri fram í frv., að stjórnin skyldi af fremsta megni reyna að tryggja landinu olíu til 1 árs í senn. Jeg tel víst, að hver og ein stjórn myndi reyna að ganga svo vel frá þeim samningum, sem henni væri unt, og það nægði.

Eitt atriði viðvíkjandi starfrækslunni vil jeg benda á, sem í sjálfu sjer er ekki mikils virði. Það er tekið fram, að reikningar verslunarinnar skuli vera endurskoðaðir og sjerstök bókfærsla höfð. Hjer í frv. er farið fram á, að landsstjórnin skuli skipa endurskoðendur. Það er að vísu smávægilegt, en þó kynni jeg betur við, að einhver fjelög eða menn gerðu það, sem hefðu áhuga fyrir því, að alt væri í lagi. Ef landsstjórnin skipar bæði forstjóra fyrir verslunina og endurskoðendur, verður verslunin ofbundin við landsstjórnina. Þessar aths. vildi jeg taka fram áður en málið fer til nefndar, svo að nefndin gæti íhugað þær.