10.08.1917
Neðri deild: 30. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 991 í C-deild Alþingistíðinda. (3340)

98. mál, forkaupsréttur landssjóðs á jörðum

Gísli Sveinsson:

Jeg gat þess áður, að frv. hefðu tekið bótum hjá nefndinni, og átti jeg þá einkum við hið síðara, eða það, sem nú er til umræðu, og gat hv. flm. (S. S.) vel við það unað og skrifað undir nefndarálitið, en hitt skil jeg vel, að hann vilji bera það af sjer, að hann sje ósamþykkur þeirri greinargerð, sem hann sjálfur ljet fylgja sínu eigin frv. í öndverðu, eins og stendur í niðurlagi nefndarálitsins.

Það, sem ber að leggja áherslu á í þessu máli, er það, að öllum ákvæðum, sem í öllum þessum þremur frv. felast, sje safnað saman í eina heild. Það gæti þá orðið miklu auðveldara í framkvæmdinni, yrði miklu styttra og þyrfti ekki eins miklar umbúðir. Þessum ákvæðum mætti líka vel koma fyrir í einu lagi. Það, sem þarf að taka fram, er þetta: Sjeu jarðir, sem eru í byggingu, seldar, þá skal ábúandi eiga kauparjettinn, síðan, að honum frágengnum, sveitarfjelagið og því næst landssjóður. En sjeu jarðir, sem eru í sjálfsábúð, seldar, þá skal fyrst sá komandi ábúandi eiga kauparjettinn, því næst sveitarfjelagið og loks landssjóður. Með öðrum orðum, það þarf að bæta einum aðilja, sem sje landssjóði, inn í frv. um forkaupsrjett leiguliða; þá er allur vandinn að mestu leystur.

Hv. 2. þm. Árn. (E. A.) talaði um, að það væri verið að setja hjer ákvæði, sem deildin hefði fyrir skemstu verið mótfallin, og taldi það enda álitamál, hvort heppilegt væri, að landssjóður safnaði að sjer jörðum.

Jeg greiddi um daginn atkv. á móti frestun á framkvæmd þjóðjarðasölulaganna, af því, að þótt ýmsir álíti, að ekki beri að selja jarðir landssjóðs, þá áleit jeg það vera hið stakasta misrjetti að hætta nú alt í einu að selja jarðirnar, þegar ekki eru eftir nema þær lökustu, en flestar góðjarðirnar seldar fyrir löngu, Mjer þótti það nóg, að þeir, sem nú kaupa ábúðarjarðir sínar, fá þær með miklu verri kjörum en þeir, sem keyptu fyrst. Það hefði því verið tvöfalt misrjetti að hætta nú að selja jarðirnar. En þegar nú er um það að ræða, hvort rjett sje, að landssjóður sje að kaupa jarðir, þá er það talsvert annað mál. Það getur nefnilega verið æskilegt, að landssjóður eigi kost á að kaupa ýmsar kostajarðir, eins og til dæmis aðra eins kostajörð og þá, sem frv. eitt, sem lá hjer fyrir deildinni fyrir skömmu, lagði til að yrði seld. Deildin getur því, hvað það snertir, hiklaust samþ. þetta tilvonandi samsteypufrv., þótt hún hafnaði hinu, sem hjer lá fyrir um daginn.

Ef landsstjórnin tekur tillit til þessarar stefnu, þá kaupir hún ekki annað en bestu jarðirnar. Af þessum ástæðum sting jeg upp á því, að háttv. nefnd taki frv. á ný til athugunar.

Um hitt, sem háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) talaði, að hægt væri að fara í kringum lögin, er það að segja, að það eru engin þau lög til, sem ekki má fara í kringum. Það á ekki fremur við um þessi lög en þau lög, sem nú gilda um forkaupsrjett leiguliða.

Mín tillaga er því, að málið verði nú tekið út af dagskrá.