05.07.1917
Neðri deild: 3. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 743 í B-deild Alþingistíðinda. (335)

13. mál, einkasöluheimild landsstjórnarinnar á steinolíu

Fjármálaráðherra (B. K.):

Já, það er auðvitað mjög gott, að dugnaðarmenn bjóði starf og þjónustu sína fram í landsins þarfir á þessum tímum. Jeg býst við, að maður sá, er háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) benti á, sje mjög hæfur maður, en jeg hafði nú hugsað mjer, að best væri, að stjórnin stæði í beinu sambandi við olíuframleiðendur milliliðalaust. Hún ætti að sjálfsögðu að semja sjálf. Þessi verslun á að standa lengi, og engin ástæða er til að ætla nokkrum manni hag af henni, ef til vill æfilangt, úr því að um einokun er hjer að ræða. Jeg hafði sem sje hugsað mjer, að stjórnin annaðist þetta sjálf, án óþarfa milliliða.

Sami háttv. þm. (B. Sv.) gat þess, að hann vildi ekki gera þessa verslun að gróðavegi. Við erum sammála um það, að rjett sje að hlífa þessari vöru sem mest við skattlagningu. Þess vegna virtist og ráðuneytinu rjett að leggja ekki öllu hærra gjald á olíuna en nú er gert, svo að hjer er ekki um nýtt álag að ræða. En aftur á móti er það og alveg nauðsynlegt, ef stofnunin á að verða sjálfstæð, að menn leggi á sig dálítið gjald, svo að verslunin geti safnað í sjóð og staðið óhöllum fótum.

Sami hv. þm_. (B. Sv.) spurði enn fremur, hvað gera ætti við olíu, sem til yrði í landinu, er landssjóðseinokun á steinolíu byrjaði. Ráðuneytinu var kunnugt um, er það samdi frv., að enginn átti hjer olíu, nema stjórnin, og hefir það smitað það. Annars væri sjálfsagt rjettara að hafa til ákvæði um það.

Háttv. 1. þm. Reykv. (J. B.) taldi óeðlilegt að gera ráð fyrir því, að stjórnin gæti ekki venjulega trygt landinu nóga olíu, og því óþarft að hafa nokkurt undanþáguleyfi frá einkasölulögunum. Það er alveg rjett, að ekki þarf að gera ráð fyrir því á venjulegum tímum, en af því, að við lifum á óvenjulegum tímum, verðum við að gera ráð fyrir, að aftur geti komið óeðlilegir tímar, því að lögin eiga að standa lengi, og þá þarf að vera útvegur til, að aðrir geti komið stjórninni til aðstoðar, ef á þyrfti að halda. Annars vill stjórnin ekki gera þetta að neinu kappsmáli, en ráðuneytinu fanst einungis, að öll varúð væri nauðsynleg.

Sami háttv. þm. (J. B.) er á móti, að lagt sje á olíuna eftir verði í prósentum, og getur það orðið álitamál, því að einum sýnist þetta og öðrum hitt. Annars er þetta gjald svo lágt, að það getur aldrei orðið tilfinnanlegt fyrir neinn, því að ekki nær neinni átt að miða við það verð, sem nú er á olíu, enda dettur víst engum það í hug, því að það ástand, sem nú er, kemur líklega aldrei aftur.

Þá talaði háttv. þm. (J. B.) um tryggingarákvæðið, og þótti það að vísu gott, að landinu væri trygð olía, en hjelt þó, að ákvæðið gæti orðið skaðlegt. Jeg álít það alveg nauðsynlegt, og enga hættu á, að samningar myndu stranda vegna þess. Segjum nú t. d., að við settum það upp, að fjelagið keypti veðdeildarbrjef upp á hálfa miljón, sem við skuldbyndum okkur til að kaupa þegar við hættum viðskiftum við fjelagið. Hjer er um svo mikil viðskifti að ræða, að ekkert fjelag mundi horfa í að semja á þennan veg. Þetta væri næg trygging, eins og nauðsynlegt er að hafa.

Um síðasta atriðið, er snertir endurskoðendurna, er það eitt að segja, að það er stjórninni ekkert kappsmál, hverjir ráðnir verða til þess starfa. Stjórnin er nú sterkari en verið hefir, því að fleiri menn eiga í henni sæti en áður. Ráðuneytið hugði því, að þegar 3 menn skipa stjórnina, í stað eins, væri það næg trygging þess, að hæfir menn yrðu endurskoðendur. Annars er stjórninni þetta atriði ekki kappsmál.