02.08.1917
Neðri deild: 23. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 996 í C-deild Alþingistíðinda. (3352)

116. mál, bæjarstjórn á Siglufirði

Flm. (Stefán Stefánsson):

Frv. þetta er flutt eftir ósk Siglfirðinga, og er samið af þeim með hliðsjón af lögunum um bæjarstjórn í Hafnarfirði. En af hálfu okkar flm. er það flutt með það fyrir augum, að hjer sje þarft mál og sanngjarnt, og með því að kynna sjer greinargerðina við frv. hygg jeg, að það sje nokkurn veginn ljóst, að þetta sje eðlileg krafa og hin affarasælasta fyrir Siglufjörð.

Jeg þarf varla að fara að lýsa afstöðu Siglufjarðar til Akureyrar, þar sem sýslumaðurinn hefir aðsetur. Leiðin milli Siglufjarðar og Akureyrar mun vera sem næst 8–10 mílur, og yfir haf að sækja nokkurn hluta leiðarinnar, en á landi yfir fjöll eða heiðar að fara.

Ferðir til sýslumanns eru því mjög erfiðar. En til hans þarf auðvitað oft að leita. Íbúar kaupstaðarins eru nú yfir 800 að tölu; og þar að auki sækja þangað bæði útlendir og innlendir menn, svo að hundruðum og jafnvel þúsundum skiftir, á hverju sumri. Verslun og veiðiskapur eru þar aðalatvinnuvegir, reknir af miklu kappi og atfylgi, og er því ekki óeðlilegt, þótt þráfaldlega komi fyrir, að mönnum beri sitthvað á milli. En þá er það öllum sjáanlegt, hvert óhagræði af því getur leitt, að langt er til sýslumanns, svo að það þurfi að taka langan tíma að ná til hans.

Íbúum Siglufjarðarkauptúns fjölgar árlega, og þarf enginn að ímynda sjer, að það sje nein augnabliksbóla, sem hjaðnar áður en varir. Íbúatalan hefir einmitt aukist stöðugt nú um mörg ár og allra mest hin síðustu, um 100 árlega. 1910 var hún rúmlega 400 manns, en árið sem leið allmikið á 9. hundrað, og eftirtektarvert er það, að enn stórstígari hafa þó verið á sama tíma útsvarsupphæðir í Hvanneyrarhreppi, því að árið 1910 voru útsvörin 4.630 kr., en í haust sem leið 40.170 kr.; er þetta að mestu leyti greitt í kauptúninu, og sýnir því gjaldþolið greinilega. Einnig má geta þess, að löngu áður en nokkur síldveiði byrjaði voru þar 5—6 hundruð manns aðkomandi, sem unnu að ýmiskonar vinnu, bæði á sjó og landi, fyrir hátt kaup. Til dæmis um það, hve mikill sjávarútvegur er þaðan rekinn, má geta þess, að þaðan ganga vjelbátar frá Ísafirði, Húsavík, Húnaflóa, Skagafirði o. fl. stöðum. Af öllu þessu má sjá, hvílík nauðsyn er á, að yfirvald sje ætíð við höndina, eða þar á staðnum.

Í greinargerðinni fyrir frv. er engin áætlun um kostnaðinn, sem þetta hefir í för með sjer, og býst jeg við, að háttv. deildarmenn muni telja það allverulegt atriði. Að vísu sjest á sjálfu frv., að ætlast er til, að bæjarfógetinn hafi 2.000 kr. árslaun. 1.000 kr. eru nú veittar til löggæslu á Siglufirði um sumartímann. Kostnaðaraukinn yrði því einar 1.000 kr. En það skal jeg taka fram, að jafnvel þótt launaupphæðin yrði lækkuð lítið eitt, þá mundi það engan veginn hindra það, að frv. væri gert að lögum, því að aukatekjur væntanlegs bæjarfógeta á Siglufirði nema óefað svo að skiftir þúsundum króna. En hvað svo sem er að segja um hans tekjur út af fyrir sig, þá hygg jeg engan vafa á því, að landssjóður mundi vinna á breytingunni mikla peninga, fyrir betra og stöðugra eftirlit á löggæslunni.

Sjálfsagt er að geta þess, að engin yfirlýsing frá sýslunefnd Eyfirðinga liggur enn fyrir um þessa breytingu. En nú þessa dagana mun sýslunefndin halda fund með sjer í tilefni af þessu máli, eða á annan hált láta álit sitt í ljós, og hefi jeg lagt ríkt á, að fundargerðir eða álit nefndanna berist hingað sem fyrst.

Að lokum vil jeg geta þess, að Siglfirðingum er nokkru meira kappsmál að fá þessu framgengt nú, vegna þess, að á næsta vori er aldarafmæli Siglufjarðar. kauptúns.

Jeg skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta að sinni, en mælist til, að frv. verði, að umr. lokinni, vísað til allsherjarnefndar.