02.08.1917
Neðri deild: 23. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 998 í C-deild Alþingistíðinda. (3353)

116. mál, bæjarstjórn á Siglufirði

Forsætisráðherra (J. M.):

Þótt hv. flm. (St. St.) væri sýnd sú kurteisi, að málið væri sett í nefnd, hygg jeg, að það geti vart verið tilgangur hans, að það nái fram að ganga á þessu þingi, eins óundirbúið og það er. Þótt sýslunefndarálitið komi fram, getur hann sagt sjer sjálfur, að ekki verður stofnað, svona undirbúningslítið, til jafnstórs landssjóðsembættis. Það væri öðru máli að gegna, ef kauptúnið ætlaði sjer að bera allan kostnaðinn, sem af lögreglustjóra eða bæjarfógeta leiddi. Þá kæmi auðvitað til mála, að því fengist framgengt á þessu þingi.

Jeg er ánægður með, að málinu verði vísað til allsherjarnefndar, því að jeg er sannfærður um, að hún leggur ekki til, að það nái fram að ganga á þennan hátt.