08.08.1917
Neðri deild: 28. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1000 í C-deild Alþingistíðinda. (3360)

122. mál, sala á þjóðjörðinni Höfnum

Flm. (Þórarinn Jónsson):

Jeg skal vera mjög stuttorður. Jeg kem með þetta frv. fyrir háttv. deild af alveg sjerstökum ástæðum. Þessi jörð, sem hjer er um að ræða, hefir gengið gegnum alt það, sem áskilið er, þegar til stendur að selja slíkar jarðir. Hún hefir verið virt af óvilhöllum mönnum, farið til sýslumanns og landsstjórnar, og hvergi hafa komið fram mótbárur móti því, að salan mætti fara fram. Svo þegar landsstjórnin hefir haft málið með höndum, verður niðurstaðan sú, að hún samþ. að gefa ábúanda heimild til að kaupa umrædda jörð fyrir virðingarverð. En svo þegar ábúandi hefir ráðið við sig að nota þessa heimild sína, þá kemur fram tilboð um hækkun á eftirgjaldi, svo mikil, að stjórnin sjer sig um hönd og hækkar jörðina um 9½ þúsund krónur, með öðrum orðum, hækkar jörðina úr 28 þús. kr. upp í 37½ þús. kr. Eins og gefur að skilja sá kaupandi sjer ekki fært að ganga að þessum kaupskilmálum, því að honum þótti verðið fullkomlega hátt áður. Gat hann því ekki sætt kaupunum, en reyndi að komast að samningum með hinu fyrra verði, en því var hafnað. Jeg skal ekki fara langt út í þetta mál, en að eins taka það fram, að þar sem umboðsmaður hefir gefið umsögn með sölunni, ásamt virðingarmönnum, og stjórnin hafði ekki fundið neina ástæðu til að hækka verðið, þá fæ jeg ekki skilið, hvers vegna hún hefir gengið frá sínu fyrra boði. Jeg vil leyfa mjer að geta þess, að það liggja hjer plögg frammi fyrir háttv. þm., sem fjalla um það, sem á undan er farið í þessu máli, og geta menn þar sjeð, hvernig þessu eftirgjaldstilboði er varið. Hvað viðvíkur sölu á öðrum jörðum, sem líkja mætti við þessa jörð, má nefna það, að Þingeyrar, sem voru „privat“ eign, voru seldar á 30 þús. kr., og eru þær þó og hafa altaf verið taldar einhver besta jörðin í Húnavatnssýslu. Þá má og geta þess, að eftir afgjaldinu á Höfnum hefir hjer ekki verið um stóra jörð að ræða. Árið 1861 var hún metin 38 hndr., en eftir fornu mati 20 hndr. Framför og umbætur á jörðinni eru nú orðnar miklar, en þess ber vel að gæta, að þær eru að þakka ábúanda, eða þeim ættliðum, sem þar hafa nú búið hver eftir annan, og finst mjer ekki nema sjálfsögð sanngirniskrafa, að tillit sje tekið til þess, og að ábúandi fái að njóta þess í einhverju, að hann hefir lagt svo mikið í umbætur á þessari jörð. Jeg vil aftur geta þess, að hjer liggja frammi plögg, sem sanna það, sem jeg hjer fer með. Enn fremur vil jeg í þessu sambandi minnast á aðra jörð, sem var virt á sama tíma, og var seld fyrir virðingarverð. Það er jörðin Árbakki í Vindhælishreppi. Kaupbeiðandi dregur það alveg jafnlengi að biðja um kaupbrjef fyrir jörðinni eins og ábúandinn á Höfnum, en hann fær jörðina orðalaust fyrir hið áður ákveðna verð. Hjer er ósan.ræmi svo mikið, að ekki sýnist viðeigandi, að landsstjórnin beiti sjer svo.

Jeg er ekki að gera þetta að neinu kappsmáli. En jeg vildi að eins óska þess, að frv. væri vísað til landbúnaðarnefndar, að lokinni umræðu. Ætti hún að geta kynt sjer málið eftir föngum af plöggum þeim, sem hjer eru fyrirliggjandi, og skýra síðan frá sinni niðurstöðu.