08.08.1917
Neðri deild: 28. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1005 í C-deild Alþingistíðinda. (3364)

122. mál, sala á þjóðjörðinni Höfnum

Einar Arnórsson:

Það er fyrst um þetta mál að segja, að virðing sú á jörðinni, er fyrir lá í stjórnarráðinu, var nokkuð gömul. Mig minnir, að hún væri 2–3 ára, eða ef til vill eldri. Málið kom ekki fyrir stjórnina fyr en 1916, en virðingin mun hafa verið frá 1912. Jeg skal ekkert segja um það, hvernig sambærilegar jarðir hafa verið seldar. Það hefir verið mjög títt, þegar kaup hafa ekki farið fram hæfilegum tíma eftir virðingu, að stjórnin hefir ekki talið sjer skylt að fara eftir þeirri virðingu, heldur hefir endurvirðing þá orðið að fara fram. Nú var svo ástatt um þessa jörð, að ábúandi gaf sig ekki fram um kaup á jörðinni lengi eftir virðinguna. Það var víst fyrst 1916, að hann gaf sig fram. Auk þess voru ýmsir aðrir annmarkar. Umboðsmaður mun hata sagt, að sá, eða sú, sem ætlaði að kaupa, hefði mjög vafasaman ábúðarrjett. Ekkja sú, sem að formi til hafði ábúðarrjettinn, var hætt búskap og álti sjálf heima í Stykkishólmi, en sonur hennar bjó á jörðinni. Umboðsmaður mun hafa lýst búskapnum á jörðinni þá sem ekki í góðu lagi. Jeg held, meira að segja, að umboðsmaður hafi viljað losa jörðina úr ábúð, þar sem hún var, að hans dómi, svo illa setin, enda vafasamt, hvort ekkjan hefði ekki fyrirgert ábúðarrjetti sínum, er hún bjó ekki lengur á jörðinni.

Það er alveg rjelt hjá hv. 1. þm. Húnv. (Þór, J.), að þessi ætt hefir nú í 3. liðu haft búskap á þessari jörð, en eftir sjálfum lögunum um sölu þessara eigna held jeg, að ekki sje nema síðustu 10 ára bætur, sem ráðið geti niðurfærslu á matsverðinu. Þótt forfeðurnir hafi bætt eina jörð stórkostlega, ætti það ekki að skifta neinu máli um verð jarðarinnar, ef niðjarnir vilja kaupa, því að jeg verð að líta svo á, sem þeir sjeu búnir að hafa fullar nytjar bótanna, sem þeir hafa gert.

Sem sagt var eftir áliti umboðsmanns ótækt að selja jörðina fyrir þetta verð. Það er alkunnugt þeim, er til þekkja, að þessi jörð er ein af mestu nytjajörðum landsins. Jeg geri nú ráð fyrir, að sú háttv. nefnd, sem mál þetta fær til athugunar, fái öll gögn hjer að lútandi, sem fyrir liggja, bæði hjer á lestrarsal og í stjórnarráðinu.og geti svo dæmt í þessu máli.

Þótt jörðin sje metin svo og svo lágt fyrir svo og svo mörgum árum — mat mun hafa farið fram 1848–1849, þótt tilskipun, er staðfestir matið, sje frá 1861 — þá þarf það ekki að gefa miklar upplýsingar um gæði jarðarinnar. Hún getur hafa breyst og mun, sem betur fer, hafa breyst til batnaðar síðan, jafnvel stórhækkað í verði. Þetta sýnir það eitt, að jarðamat hjá oss nú er alveg ótækt.

Jeg get tekið undir það með hæstv. forsætisráðherra, að það væri mjög hæpið, ef þingið færi að setja niður það verð, er stjórnin telur sanngjarnt á jörð. Stjórninni er oft legið á hálsi fyrir, að hún gæti ekki hagsmuna landssjóðs. Þetta mundi gefa það fordæmi, að stjórnin yrði hrædd um sig, og gætti þess best af öllu að selja nógu ódýrt. Er það gott fyrir kaupendur, en ekki jafngott landssjóði.