04.07.1917
Efri deild: 2. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1019 í C-deild Alþingistíðinda. (3382)

11. mál, kornforðabúr

Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Þetta er lítið frv. og er fram komið fyrir óskir úr ýmsum sveitum, þar sem slík kornforðabúr til skepnufóðurs eru til, sem hjer ræðir um. Í lögunum, sem þessi viðauki á við, eru ekki sömu ákvæði og í öðrum lögum um forðabúr. Því er slept, að landssjóður veiti styrk til þeirra.

Búnaðarfjelagið hefir beint þessu máli til stjórnarinnar, og hún hefir ekkert sjeð athugavert við það og talið þetta frekar til bóta. Vera má, að háttv. Alþingi virðist ástæða til þess að athuga forðabúrsmálin yfirleitt nánara, en þetta frv. gefur ekkert sjerstakt tilefni til þess. Ætlunin er sú ein að gera þessum kornforðabúrum jafnhátt undir höfði og öðrum forðabúrum. Er líklegt, að frv. geti orðið til þess, að kornforðabúrum fjölgi, ef það nær fram að ganga.

Að öðru leyti vænti jeg, að frv. fái að fara til 2. umr., og að því verði vísað til landbúnaðarnefndar.