14.07.1917
Neðri deild: 10. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1035 í C-deild Alþingistíðinda. (3410)

48. mál, friðun lunda

Flm. (Pjetur Þórðarson):

Jeg hefi nú mælst til þess, að hv. deild vilji ómaka sig til að líta á ástæðurnar fyrir þessu litla frv. á þgskj. 49. En vegna dýrleika

tímans skal jeg fara fljótar yfir sögu en jeg ella myndi. Eins og kunnugt er eru mjög notasæl hlunnindi af lundaveiði, bæði til matar og sængurfatnaðar, á Breiðafirði, Vestmannaeyjum og víðar. Síðastliðin 25 ár hefi jeg kynt mjer lifnaðarháttu fugls þessa og veiðiaðferðir þær, sem notaðar eru til að veiða hann. Hann er farfugl, kemur seint í apríl eða snemma í maí. Hann heldur sig einkum að grasvöxnum eyjum, velur sjer bústað og grefur undir yfirborði jarðar, og verpir þar. Varptíminn byrjar um fardaga, og útungunin um 20. júní, en ungarnir fara ekki úr hreiðrinu fyr en þeir eru fullvaxnir og fleygir, en það verða þeir ekki fyr en um 10.—25. ágúst. Síðan 1885 hefir verið bönnuð veiði á lundum frá 10. maí til 20. júní, að viðlögðum allþungum sektum. Þeir eru því friðaðir frá því að þeir koma til landsins og fram undir þann tíma, er útungunin byrjar. Veiða má þá á öllu tímabilinu meðan ungarnir eru ósjálfbjarga. Jeg tel óþarft að útlista, hve gagnstætt þetta er rjettmætri friðunaraðferð. Reynsla mín og allra annara bænda norðanvert við Faxaflóa er sú, að ungarnir verða altaf hungurmorða í hreiðrunum, ef fuglarnir eru drepnir frá þeim. Með þessu litla frv. mínu vildi jeg stuðla að því, að komið væri í veg fyrir þessa ómannúðlegu veiðiaðferð, og skift um friðunartíma.

Engar líkur eru til, að veiðin geti ekki verið eins arðsöm og eins mikil í maí og júní eins og í júlí, því að fastheldinn er fuglinn við stöðvar sínar, og mikið rýrnar hann meðan hann klekur út og fóstrar unga sína. Og ef að eins er litið á hagsmuni veiðieigenda, þá er það svo við norðanverðan Faxaflóa, og líklega víðar, að það er síst hentugri tími um sláttinn til veiða heldur en að vorinu til.

Af þessum o. fl. ástæðum held jeg, að rjett sje að friða lunda helst um þann tíma, sem hann hefir fyrir ungunum að sjá, ef annars álíst rjett að friða hann nokkurn tíma. Eftir að frv. var frá mjer farið til prentunar hefi jeg orðið var við, að breyting sú, er það gerir á friðunartíma, muni vera andstæð fuglaveiðisamþykt Vestmannaeyinga, og tveir mikilsvirtir lundaveiðieigendur hjer nærri Reykjavík hafa sagt mjer, að þeir teldu sjer með öllu bannaða lundaveiði, ef frv. yrði óbreytt að lögum. Þótt jeg, samkvæmt áður sögðu, álíti, að ummæli þessara manna sjeu bygð á misskilningi, og jeg tel víst, að Vestmannaeyingum þyki hjer gengið altof nærri hagsmunum sínum, en jeg vil ekki leggja nein höft á framleiðslu þessa, þá hefir mjer dottið í hug, að laga mætti frv. þannig í hendi sjer, að hvorumtveggja mætti gera til hæfis, og leyfi jeg mjer því að vænta þess, að það fái að ganga til 2. umr. og verði svo vísað til nefndar, og þar til vildi jeg þá nefna landbúnaðarnefnd.