04.08.1917
Neðri deild: 25. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1041 í C-deild Alþingistíðinda. (3421)

58. mál, ritsíma- og talsímakerfi

Frsm. (Þórarinn Jónsson):

Eins og sjest á nefndarálitinu hefir nefndin lagt til, að breytt yrði töluvert ákvæði frv. um það, að landssjóður taki að sjer rekstur símstöðva um land alt. Þegar nefndin fór að athuga málið, kom það í ljós, að betra væri að fara varlega í sakirnar. Nefndin leitaði álits símastjórans um þetta mál, og í brjefi til nefndarinnar skýrir hann frá því, að það sje tilgangur símastjórnarinnar, að landssjóður taki að sjer rekstur stöðvanna smátt og smátt, eftir því sem efni og ástæður leyfa. Nefndin fjellst því á það að gefa eftir á ákvæðum frv., enda þótt hún viðurkenni, að mikið misrjetti eigi sjer stað með rekstur stöðva víða um land. Á ýmsum stöðvum eru tekjurnar svo langt fram yfir útgjöldin, að landssjóður ætti að geta borið halla á öðrum stöðvum, ef um hann væri að ræða. Á stöðinni á Húsavík t. d. eru tekjurnar yfir 1.000 kr. á ári, en útgjöldin að eins liðugar 300 kr., þar af 250 kr. laun starfsmanna. Þannig mætti mýmörg dæmi til færa.

En nefndin getur engan veginn talið rjettmætt, að hjeruðin borgi rekstur stöðvanna að mestu eða öllu leyti. Stöðvar, sem standa við þjóðvegi eða í kauptúnum, eru til almenningsnota, — notaðar oft miklu meira af ferðamönnum en af íbúum hreppsins eða hjeraðsins. Það er því óhæfa, að einstakir hreppar borgi allan kostnað við þessar stöðvar. Í nefndarálitinu er reynt að fara milliveg. Er ætlast til, að landssjóður greiði 4/5 kostnaðar við 1. flokks stöðvar B, 2/3 kostnaðar við 2. flokks stöðvar og kostnað við 3. fl. stöðvar. Með þessu fæst nokkur jöfnuður.

Svo eru nokkrar stöðvar, sem landssjóður kostar að öllu leyti; það eru eftirlitsstöðvar og skiftistöðvar. Aftur á móti er ekki gert ráð fyrir, að landssjóður leggi neitt til einkastöðva. Yfirleitt telur nefndin sjálfsagt, að landssjóður borgi, að meira eða minna leyti, kostnaðinn við rekstur símstöðvanna, og að hann taki því meiri hlutdeild í kostnaðinum, sem stöðin er í þarfir fleiri sveita. Enn fremur gengur hún út frá, að símastjórinn láti landið smám saman taka að sjer allan reksturinn, og fari með það eftir því, hve miklar tekjur stöðvarnar veita, eða hverja þýðingu þær hafa í símakerfinu.

Ekki er hægt að segja neitt um það, hve mikil útgjöld breyting þessi hefir í för með sjer. Það er ekki unt, að minsta kosti ekki í fljótum hasti, að safna skýrslum um reksturskostnað símastöðvanna á öllu landinu. Landssjóður mun nú borga upp undir 4/5 kostnaðar við sumar stöðvar af 1. flokki B. Aftur á móti eru 3. flokks stöðvar að öllu leyti kostaðar af sveitarfjelögunum. Það mun því verða nokkur útgjaldaauki fyrir símann, sem ekki er hægt að reikna út að svo komnu.

Enn fremur kom það til tals í nefndinni, og er vikið að því í nefndarálitinu, að svipað misrjetti hefði átt sjer stað með framlög ýmsra sveitarfjelaga til símalagninga. Framlag sveitarfjelaga og hjeraða til talsímalagninga er nú orðið yfir 100.000 kr. Sumir einstakir hreppar hafa jafnvel lagt fram 6.000 kr. Þessi framlög eru jafnórjettlát og kostnaðurinn við stöðvarnar. Símastjórinn gat þess, að nokkuð af þeim væri þegar endurgreitt. En það eru að eins 10.000. Enn er því nálægt 100.000 kr. ógoldið, og er sjálfsagt að endurgreiða það svo fljótt, sem því verður við komið.

Þá er einnig drepið á það í nefndarálitinu, að óviðeigandi sje, að símastjóri setji yfirtakta á símtölin, eins og hann hefir gert. Það leiðir af sjálfu sjer, að 3. flokks stöðvarnar bera mestan hallann af þessu einræði símastjóra. Símalínurnar eru nú venjulegast svo uppteknar, að 3. flokks stöðvar eiga mjög erfitt með að ná sambandi. Yfirtaxtarnir gætu orðið til þess að útiloka þær með öllu. Síðan nefndarálitið kom út hefi jeg frjett, að yfirtaxtarnir sjeu afnumdir, meðan 3. flokks stöðvar eru inni, og það gæti komið til mála að afnema hraðsamtöl líka á sama tíma, svo að þær gætu fengið að njóta sín, og landssjóður notið þeirra tekna, sem þær geta veitt. Nefndin sá sjer samt ekki fært að leggja út í að breyta lögunum í þessa átt, en hún vonar eftir því, að símastjórnin lagi þetta í hendi sinni, eftir því sem hún getur, svo að menn sje ekki útilokaðir frá notkun símans.

Hvað snertir stofnun nýrra stöðva, þá gæti komið til mála, að það yrði til að hindra stofnun þeirra, að landssjóður eigi að greiða kostnaðinn við þær. En jeg held ekki, að mikil ástæða sje til að óttast það. Kostnaðurinn er svo lítill við stofnun og rekstur hverrar stöðvar. Enda hlýtur landssímastjórinn að líta á þýðingu þess fyrir símann í heild sinn:, að nýjar stöðvar sjeu reistar, þar sem þeirra er þörf.

Að lokum skal jeg geta þess, að ritvilla hefir slæðst inn í nefndarálitið: „B“ á að falla í burt við stöðvar 2. og 3. flokks.