04.08.1917
Neðri deild: 25. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1045 í C-deild Alþingistíðinda. (3423)

58. mál, ritsíma- og talsímakerfi

Sveinn Ólafsson:

Jeg verð að kannast við það, að eftir brtt. nefndarinnar er landssjóði betur borgið en eftir frv., og skiftir það miklu í mínum augum. Jeg hefi verið talsvert efablandinn um það, hve langt mætti ganga í þessu máli, meðan svo er sem nú, að fjárhagurinn er ekki betri en svo, að búast má við miklum reikningshalla.

Jeg held, að menn hafi ekki gert sjer fyllilega ljóst, hve hátt gjaldið verður, sem fellur á landssjóð eftir þessu frv., enda eru ekki nægar skýrslur fyrir hendi til þess. Eftir því, sem jeg kemst næst, eru 3. flokks stöðvar yfir 100 á landinu, og eru þær því nær allar kostaðar af sveitarfjelögum, eða stundum af sýslufjelögum Kostnaðurinn við þær stöðvar, sem jeg þekki til, nemur árlega 150—250 kr. á hverja, og þótt ekki væri tekinn nema helmingurinn af því gjaldi, þá mundi landssjóð muna það býsna miklu.

Jeg tel því sjálfsagt að hallast að tillögum nefndarinnar, en ekki að upphaflega frv., og er ákveðinn í því fyrir mitt leyti,

Háttv. frsm. (Þór. J.) tók það fram, að þetta ákvæði mundi valda því, að landssímastjórinn yrði tregur til þess að setja upp nýjar stöðvar, af því að kostnaðurinn yrði nú lagður meir á landssjóð. Ekki fæ jeg sjeð það. Jeg sje ekki annað en að símastjórninni sje opin leið að semja við sveitarfjelögin, eins fyrir þessu, um þátttöku í rekstrarkostnaði stöðvanna, enda óviðurkvæmilegt að leggja höft á samningafrelsi um þessa hluti.