04.08.1917
Neðri deild: 25. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1050 í C-deild Alþingistíðinda. (3426)

58. mál, ritsíma- og talsímakerfi

Matthías Ólafsson:

Jeg skal ekki vera langorður, en jeg get ekki látið vera að skjóta því til hv. framsm. (Þór. J.), hvort hann hafi gert sjer grein fyrir því, hvernig símamálum landsins er fyrir komið. Fyrirkomulag þeirra er þannig, að þau eiga að bera sig sjálf; þau eiga að borga sín lán og leggja nýja síma. Ef menn segja, að síminn beri sig, þá hlýtur hann að hafa nægar tekjur til þess að borga vexti og afborganir af nýjum lánum. En síminn ber sig ekki, ef aðrir þurfa að hlaupa undir bagga með honum. Það mundu verða glæsilegar tekjur af póstgöngunum, ef ekki þyrfti að borga af þeim fyrir brjefhirðingar, en eins og landssjóður hefir borgað fyrir þær, alveg eins er honum skylt að greiða allan rekstrarkostnað símastöðvanna.

Annars er óþarft að deila um þetta mál, því að nefndin kannast við, að till. sínar sjeu ekki rjettlátar, en undarlegt er það að hallast að ranglátri stefnu; hitt kemur fyrir, þegar menn eru í vafa um, hvað rjett er, að menn fylgja því, sein er rangt. En nefndin hefir sjálf slegið fastri niðurstöðu sinni í nál. og lýst yfir því, að hún sje ekki rjett, en þá er þess að vænta, að hv. deild komist að annari niðurstöðu.

Það er sá munur á því, hvort landssjóður borgar eða menn úti um land, að landssjóður getur náð þeim kostnaði aftur, löggjafarvaldið er í þjónustu hans og getur innheimt gjaldið, en það geta aðrir ekki. Þess vegna er það líka rangt að vera að tala um sparnað fyrir landssjóð; þetta er enginn sparnaður; hjer er um það ræða, að landssjóður láti aðra borga það, sem hann á að borga sjálfur. Jeg verð því að segja, að eftir till. nefndarinnar fer hjer fram leikur og hann ljótur.