04.08.1917
Neðri deild: 25. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1053 í C-deild Alþingistíðinda. (3429)

58. mál, ritsíma- og talsímakerfi

Magnús Pjetursson:

Háttv. frsm. (Þór. J.) talaði mikið um þann óbeina hagnað, sem hrepparnir hefðu af símanum og taka yrði tillit til. Það getur vel verið, að það sje rjettlátt, en jeg get ekki fallist á, að hagnaðurinn vaxi eftir því, sem starfstími stöðvarinnar er styttri. Mjer skilst hagnaðurinn hljóta að verða minni hjá þeim hreppum, sem hafa 3. fl. stöðvar, sem hafa stystan starfstíma, en samkvæmt tillögum nefndarinnar eiga hlutaðeigandi hreppar að borga hlutfallslega mest fyrir þær.

Það hefir verið sagt, að meiri not væru af síma- en póststöðvum, og get jeg fallist á það, en þá eiga ekki hrepparnir að bera kostnaðinn, heldur notendurnir, og ef síminn ber sig ekki, þá má ekki láta hreppana borga það, sem á vantar, því að tekjuhallinn stafar af því, að gjöldin fyrir símaafnot eru ekki nógu há, og eina rjetta leiðin er því að hækka þau. Viðvíkjandi póstgöngum er það að segja, að þótt póstgöngur sjeu nú komnar á um alt land, eins og háttv. 2. þm. S.-M. (B. St.) sagði, þá veit jeg þó, að altaf er verið að bæta við nýjum brjefhirðingastöðum og aukapóstum, án þess að hlutaðeigandi sveitir sjeu krafðar endurgjalds fyrir kostnaðinn.