04.08.1917
Neðri deild: 25. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1055 í C-deild Alþingistíðinda. (3431)

58. mál, ritsíma- og talsímakerfi

Pjetur Jónsson:

Jeg hefi ekki hlustað á allar umræðurnar og veit ekki, hvað búið er að segja, en jeg heyrði, að verið var að líkja saman símstöðvum og brjefhirðinga- eða póstafgreiðslustöðvum. Sú samlíking hrekkur nú ekki alveg til, eins og hv. 2. þm. S.-M. (B.St.) hefir bent á. Mjer datt í hug að minna á annað, sem hægt er að líkja símamálum saman við: það eru vegamálin. (B. J.: Það er enn fráleitara). Þegar símalögin voru samþykt hjer í þinginu, voru vegalögin höfð til fyrirmyndar. Jeg vildi óska, að yngri þingmenn, sem ekki voru á þingi þá, athugi, hvað þingið gerði þá til að koma góðu skipulagi á. Þegar vegalögin voru samin 1894, var það ákveðið, að hreppar skyldu kosta sína vegi, sýslur sýsluvegi, og landssjóður þá vegi, er þjóðvegir gátu heitið. Enn fremur átti landssjóður að kosta þá vegi, sem hjeruðunum, hverju um sig, var alveg um megn að leggja út í að gera, sem sje flutningabrautir. Sama hugsun var ríkjandi í símamálinu 1905. Jeg man vel, að sú varúðarregla var tekin 1905 að láta sveitirnar bera meira og minna af kostnaðinum við stöðvarnar, svo að ekki yrði ofmikil ásókn um að fá stöðvar alstaðar. Jeg gæti bent á ýmsar afleiðingar af því, ef þeirri hugsun yrði raskað. Ef það ráð yrði tekið að láta landssjóð taka á sig allan kostnað af símanum, yrði auðvitað gengið í skrokk á landssjóðnum, með að heimta síma inn á hvert heimili, og er þá auðvitað landssjóði með því stofnað í voða. Ef hjeruðin aftur á móti bera nokkuð af kostnaðinum, er settur hemill á þetta. Að vísu er ekki fjárhagshætta eins mikil af símstöðvaþjónustunni einni sjer, þótt frv. þetta gangi fram. En þá eru aðrar afleiðingar. Frv. mælir svo fyrir: „Þegar stofnsettar eru talsímastöðvar til almenningsnota, skal starfræksla þeirra að öllu leyti kostuð af landssjóði“. Ef svo færi, myndi landssjóður annaðhvort reisa sjer hálfgerðan hurðarás um öxl, eða neitað yrði um símastöðvar, þótt hlutaðeigendur vildu vinna til að kosta þjónustuna að mestu eða öllu leyti. Því að slíkt væri lögbannað. Jeg sje því enga ástæðu til að raska símalögunum meir en nefndin leggur til, enda veit jeg ekki betur en að þeim stöðvum fjölgi altaf, sem landssjóður kostar.