04.08.1917
Neðri deild: 25. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1056 í C-deild Alþingistíðinda. (3432)

58. mál, ritsíma- og talsímakerfi

3432Frsm. (Þórarinn Jónsson):

Hv. þm. Stranda. (M. P.) og Dala. (B. J.) hafa talað um, hve 3. flokks stöðvarnar væru illar settar með samtöl, en jeg veit ekki, hvort þeir hafa athugað, að það yrði ekkert betra, þótt landssjóður borgaði rekstrarkostnaðinn. (B. J.: Það er þess ósanngjarnara að láta þær borga). Ráðið við þessu er að fjölga þráðum á línurnar, en það hefir kostnað í för sjer, og því má ekki draga úr þeim tekjum, sem síminn hefir nú.

Hv. þm. Dala. (B. J.) bjóst við, að menn vildu síður missa póstgöngur en síma. Það efast jeg um, því að síminn getur komið í staðinn fyrir póstsambönd. Jeg er hræddur um, að mönnum þættu samböndin við útlönd stirð núna, ef enginn sími væri. Jeg held því, að þessi ályktun hv. þm. (B. J.) hafi ekki verið vel hugsuð.

Jeg sje ekki ástæðu til að fara um þetta fleirum orðum, því að hv. þm. S. Þ. (B. J.) hefir þegar svarað ýmsu.

Jeg vona svo, að hv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) og Stranda. (M. P.) greiði atkv. með brtt., eins og þeir hafa lýst yfir. (B. J.: Klipt var það, skorið var það, en rangt var það samt).