08.08.1917
Neðri deild: 28. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1058 í C-deild Alþingistíðinda. (3435)

58. mál, ritsíma- og talsímakerfi

Magnús Pjetursson:

Eins og háttv. þingdm. sjá hefi jeg leyft mjer að koma með brtt. þá, sem jeg gat um við 2. umr. að jeg mundi bera fram.

Eins og háttv. þingdm. sjá er þetta einskonar miðlunartillaga og samkomulagstilraun við háttv. nefnd, og þætti mjer undarlegt, ef hún getur ekki fallist á hana, þar sem jeg hefi sveigt svo mikið til, að jeg hefi horfið frá þeirri grundvallarreglu, sem jeg tel rjettasta, þeirri reglu, að hlutaðeigandi sveitir eigi ekkert að borga fyrir starfrækslu síma hjá sjer.

Tillaga mín á að miða að því að gefa stjórninni sterka bendingu um það að ljetta starfrækslukostnaði símanna af sveitunum hið fyrsta að hún sjer það fært, og hins vegar á hún að draga úr ranglæti því, sem sjálf nefndin játar að eigi sjer stað, á meðan hið núverandi fyrirkomulag helst.

Jeg vona, að allir háttv. þingdm. geti fallist á þessa málamiðlun, sem jeg ber fram með brtt. á þgskj. 315, og kannist við, að það er miklu meiri tilslökun frá okkar hendi, sem álítum, að sveitirnar eigi ekkert að borga, en hinna, þótt þeir gangi að brtt.