08.08.1917
Neðri deild: 28. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1061 í C-deild Alþingistíðinda. (3438)

58. mál, ritsíma- og talsímakerfi

Háttv. frsm. (Þór. J.) var hræddur um, að svo gæti farið, að ef landssjóður ætti að fara að greiða allmikinn hluta af rekstrarkostnaði 3. flokks stöðvanna, þá mundi hann taka til sín 5 aura samtalsgjald það, sem hann hefir hingað til veitt upp í rekstrarkostnað stöðvanna og stöðvarstjórinn hefir fengið. Jeg skil ekki í, að svo verði. En þetta getur líka alveg eins orðið, ef till. háttv. nefndar eru samþyktar, eins og ef mín tillaga nær samþykki, því að landssímastjórnin getur afnumið þetta 5 aura gjald hve nær sem hún vill, og er það auðsætt, að þá verður hlutur þeirra, sem eiga að kosta rekstur stöðvarinnar, verri eftir till. nefndarinnar en eftir minni. Það má vera, að landssímastjórinn hafi í einkasamtali við háttv. nefnd lofað að sjá til, að engin breyting yrði gerð á þessu, þótt till. háttv. nefndar fengi framgang, en eigi er mjer neitt kunnugt um það, og getur eins verið, að hann lofaði hinu sama, þótt mín till. yrði ofan á.

Jeg játa, að það er mikils vert, að landssímastjórinn hefir viðurkent, að rjett sje að breyta frá núverandi fyrirkomulagi með greiðslu á rekstrarkostnaði 3. flokks stöðva, og að afnema beri misrjetti það, sem nú á sjer stað.

Að öðru leyti mælir sanngirni með því, að þeir hreppar, sem eigi hafa símastöðvar sjálfir, en njóta þó góðs af 3. flokks símastöð, hlypu undir bagga með rekstrarkostnaðinn, á meðan núverandi fyrirkomulag helst. Mjer heyrðist ekki betur en að eitt af því, sem háttv. frsm. (Þór. J.) setti fyrir sig, væri það, að samgöngumálanefnd Ed. geðjaðist ekki að till. minni. Slíkt sýnist mjer engu eiga að ráða um það, hvernig þessi deild fer með málið; þessi deild á að sjálfsögðu að greiða atkvæði um málin, bæði þetta og önnur, eftir eigin sannfæringu, en eigi haga atkvæðum sínum eftir því, hvaða skoðanir hún hyggur að kunni að vera efstar á baugi háttv. Ed. Það væri sorgleg reynsla af samvinnunni, sem til var stofnað með hinum nýju þingsköpum, ef sú yrði niðurstaðan, að sannfæring manna hjer í deildinni ætti að lúta í lægra haldi.