26.07.1917
Neðri deild: 18. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1085 í C-deild Alþingistíðinda. (3458)

81. mál, varnarþing í einkamálum

3458Flm. (Magnús Guðmundsson):

Eins og tekið er fram í ástæðunum fyrir frv. lagði landsstjórnin því nær samhljóða frv. fyrir Alþingi 1914, en það var felt í Ed. með eins atkv. mun. Með því að oss flm. virðist frv. þetta til bóta, og jeg persónulega hefi fengið beiðni um að flytja það, frá þeim, er samdi það fyrir stjórnarráðið á sínum tíma, en það er núverandi sýslumaður Snæfellsness- og Hnappadalssýslu, höfum við tekið að okkur að flytja það.

Meiningin með frv. er sú að ljetta undir með þeim, sem þurfa að leita rjettar síns með málssókn, sjerstaklega þar sem um litlar upphæðir er að ræða. Hjer hefir

komið fram annað frv., um málskostnað, og er bót að því, ef það verður að lögum, og það frv., í sambandi við þetta, ræður góða bót á þeim ágalla rjettarfarsreglnanna hjer á landi, að naumast getur borgað sig víða á landinu að leita rjettar síns með málsókn, nema um töluvert verulegar fjárhæðir sje að ræða. Frv. um málskostnað bætir úr þessum ágalla, þar sem kröfueigandi er viss um að vinna málið, en í þeim mýmörgu tilfellum, þar sem ekki er auðið að vera viss um úrslitin fyrirfram, er þetta frv. mikil rjettarbót. því að það sparar mikinn kostnað, og getur sá sparnaður komið báðum aðiljum að gagni, en eigi sjáanlegt, að neinum verði mein að.

Skal jeg svo ekki orðlengja frekar um frv., en vona, að háttv. deild leyfi því að ganga til 2. umr. og vísi því til allsherjarnefndar.