20.07.1917
Neðri deild: 15. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 756 í B-deild Alþingistíðinda. (347)

13. mál, einkasöluheimild landsstjórnarinnar á steinolíu

Benedikt Sveinsson:

Jeg er hv. fjárhagsnefnd þakklátur fyrir það, að hún hefir þó að nokkru leyti tekið til greina aths. mínar við 1. umr. þessa máls. Samt er jeg ekki fyllilega ánægður með aðgerðir nefndarinnar. Er það einkum í tveim atriðum, sem jeg get ekki verið henni samdóma. Nota jeg því tækifærið til að koma fram með brtt. við 3. umr., svo að þm. fái kost á að greiða atkv. um þessi atriði, sem mig greinir á um við nefndina.

1. brtt. er við 2. gr. í frv. er gert ráð fyrir, að öllum sje heimilt að flytja olíu til landsins, án nokkurs eftirlits frá stjórnarinnar hálfu, til þess er stjórnin tekur allan aðflutning í sínar hendur, og ekkert ákvæði um það sett, hve nær það verður. Ýmislegt mælir með því, að landsstjórnin fái nú þegar einkaheimild til innflutnings, þótt ekki taki hún framkvæmdirnar strax í sínar hendur. Hún gæti eftir sem áður veitt einstökum mönnum leyfi til að annast innflutninginn, og mundi að sjálfsögðu gera það. Þeir menn, sem vildu flytja inn olíu, yrðu þá að eins að biðja um leyfi til þess, en olíuverslunin gengi að öðru leyti sama gang og áður, þar til landsstjórnin tekur sjálf við framkvæmdunum. Vafningarnir við það að færa olíuinnflutninginn yfir á hendur landssjóðs mundu aldrei verða jafnlitlir og einmitt nú. Nú eru nokkurs konar tímamót í olíuversluninni, því að heita má, að engin olía sje til í landinu, og þegar svo stendur á, þá er landsstjórninni hægra að taka við heldur en þegar miklar birgðir eru hingað og þangað. Þó að eitt skip sje lagt af stað með olíuflutning til landsins, þá skiftir það engu máli. Stjórnin mundi veita steinolíufjelaginu heimild til að versla með þá olíu, eins og jeg tel sjálfsagt, að stjórnin mundi fyrst um sinn semja við einstaka menn um flutning og sölu olíunnar. Jeg sje engin vandkvæði á að samrýma það. Það virðist ekki heldur mikið haft á þá menn, sem flytja vilja steinolíu til landsins, þótt þeir verði að sækja um leyfi landsstjórnarinnar til þess. En með þessu fyrirkomulagi er rjettur landsstjórnarinnar betur trygður og henni gert hægra fyrir með framkvæmd laganna.

En aðalatriðið í þessu efni, sem mest mælir með þessari brtt. minni, er það, að með því að landsstjórnin fái nú þegar innflutningsheimildina, eru henni fengin í hendur tækin til að hafa fullkomið eftirlit með allri olíuverslun í landinu. Hún hefði það þá ávalt svart á hvítu fyrir framan sig, hvað liði olíuflutningum til landsins og á hverja staði olían kæmi, og gæti þá gengið fram í því að útvega olíu sjálf, er hún sæi, að skortur yrði á einhverjum stað. Á þetta atriði vil jeg leggja mikla áherslu. Landsstjórnin finnur miklu síður hvöt hjá sjer til að útvega olíu meðan öllum er leyfilegt að flytja hana, enda getur hún ekkert vitað um það, hvað líður olíuútvegun annara, nema þá með sjerstakri eftirgrenslan, sem örðug getur orðið í framkvæmd. Steinolía er svo áríðandi vara, að hana má hvergi vanta. Landsstjórnin verður því altaf að vera á því hreina með, hvar hún þarf að skerast í leikinn, en það getur hún því að eins, að henni sje fullkunnugt um allar útveganir, sem gerðar eru, og þá vitneskju hefir hún þá fyrst á takteinum, er hún ræður sjálf að fullu og öllu yfir innflutningsleyfinu. Mjer finst því ástæða til að mæla eindregið með brtt., enda virðist fátt mæla á móti henni. Það gæti ekki orðið olíuversluninni til neins baga, þótt hún væri samþykt. 3. brtt. er bein afleiðing af þeirri fyrstu, og þarf því engum orðum um hana að fara. Um 2. brtt. er það að segja, að mjer finst steinolía vera vara, sem í versta lagi er til þess fallin, að skattur sje á hana lagður. Jeg hefi áður bent á, að slíkur skattur getur komið ranglátlega niður, því að það getur vel viljað til, að útgerðarfjelag eða útvegsbóndi, sem eyðir lítilli olíu móts við aðra, afli mjög vel, en annað fjelag, sem eyðir meiri olíu, afli lítið og hafi þannig skaða af útgerðinni, og er þá auðsætt, að hjer kæmi fram tilfinnanlegt misrjetti. Jeg hygg, að bændur mundu ekki kunna vel við það, ef farið væri að leggja sjerstakan skatt á ljáblöð, og er hjer nokkuð líkt með steinolíuna; hún er framleiðslutæki, og það er algerlega rangt að leggja sjerstakan skatt á slíka hluti og gera þá að tekjustofni. En jeg býst nú samt við því, að fjárhagsnefndin hafi fylgi í deildinni með sínum tillögum, og veit, að hún er eindregið á gagnstæðri skoðun, eins og kom fram við 2. umr., því að hún tekur fyrst og fremst það til greina, er lýtur að því að afla landssjóði tekna; það er hlutverk hennar að hyggja að því, og því tekur hún þessu tækifæri tveim höndum, án þess að líta nægilega á hitt, hve ranglátt þetta gjald er. En þótt deildin vilji ekki fallast á aðaltillögu mína, að olían verði seld fyrir það verð, er liðlega svarar innkaupsverði og öllum kostnaði, sem er hið eina rjetta, þá vona jeg, að hún geti þó að minsta kosti fallist á varatillöguna, er færir skattinn af hverri tunnu úr 4 kr. niður í 2 kr.