14.08.1917
Neðri deild: 33. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1098 í C-deild Alþingistíðinda. (3487)

129. mál, brýr á Hofsá og Selá

Flm. (Þorsteinn Jónsson):

Jeg get búist við, að sumum háttv. þm. þyki frv. þetta óþarft, þar sem ekki er farið fram í fjárframlag til brúa þessara nú þegar, heldur að eins farið fram á, að landssjóður kosti þær að 2/3 hlutum, þegar fje verði í fjárlögunum veitt til þeirra. Jeg skal taka fram, að þótt sett hafi verið í frv. 2/3, þá hefði alls ekki verið ósanngjarnt, þótt frv. hefði hljóðað upp á greiðslu alls kostnaðar úr landssjóði. En okkur þótti þetta vænlegra til sigurs, svo að deildin sæi, að hjeraðið vildi leggja mikið í sölurnar til þess að fá brýr þessar bygðar.

Háttv. landsverkfræðingur hefir látið í tje kostnaðaráætlun um þessar brúarbyggingar. Eftir þeirri áætlun mun brú á Selá kosta 18.000 kr., en á Hofsá 25.000 kr., og eftir þessu legði landssjóður til rúmar 28 þús. kr., en hjeraðið rúmar 14 þús. kr., ef frv. þetta yrði samþykt.

Jeg geri ráð fyrir, að þessar brúarbyggingar geti dregist nokkuð enn, þótt frv. þetta verði samþykt. En lengri verður drátturinn, ef frv. nær ekki fram að ganga. Ef hlutaðeigandi hjeruð eiga von á, að landssjóður styrki brúargerðirnar, myndi þegar byrjað að safná fje til þess hluta, er landssjóður veitir ekki.

Jeg skal taka það fram, að báðar þessar ár renna um annað fjölmennasta hjerað Austurlands, Vopnafjörð. Önnur þeirra, Hofsá, er langversta bergvatn á öllu Austurlandi. Hún rennur um miðja Vopnafjarðarsveit, sem hefir um 1 þúsund íbúa, og á mikill hluti hjeraðsbúa yfir hana að sækja. Hún er oft óreið 8–10 vikur framan af sumri, og verður þá að fara yfir hana á ferju, en ferjustaðir eru slæmir og ilt að reka hesta yfir hana, þar sem ferjustaðir eru, því að þar eru holbakkar hvarvetna. Þeir, sem búa austan Hofsár, og þeir eru um helmingur sveitarmanna, verða að reka alt fje sitt yfir Hofsá á vorin, því að afrjettur er hinum megin. Er það ekki minna en 6000 fjár, og verður annaðhvort að ferja alt eða reka á sund. En þegar reka verður fjeð á sund, hafa oft orðið miklir fjárskaðar. Á haustin verður að reka yfir hana sláturfje það, er fara á til Vopnafjarðarkaupstaðar, bæði þeirra manna, er eiga heima í austurhluta Vopnafjarðarhjeraðs, og líka fje Úthjeraðsmanna, er versla í Vopnafjarðarkaupstað.

Hin áin, Selá, er að vísu færri mönnum til farartálma, vegna þess, að hún er norðan til í sveitinni, og færri innanhjeraðsmenn eiga yfir hana að sækja, en aftur á móti er hún slæmur farartálmi ferðamönnum. Þótt hún sje minni, er hún þó mjög ill yfirferðar og getur oft orðið óreið, en ferjustæði engin á henni. Hún er straumhörð mjög og enn hættulegri mönnum en Hofsá. Hvorug áin er að vísu á höfuðpóstleið, en samt sem áður er yfir þær báðar mikill fólksstraumur milli Norðurlands og Austurlands, og báðar eru þær á aukapóstleiðinni til Norður-Þingeyjarsýslu.

Jeg vona, að enginn misskilji þetta frv. svo, að við flutningsmenn ætlum að fara að bola þessum brúm fram fyrir þær brýr, sem áður hefir verið ákvarðað að byggja á kostnað landssjóðs, svo sem brýrnar á Eyjafjarðará og Jökulsá á Sólheimasandi. Við göngum ekki út frá, að þetta geti orðið svo fljótt, en vildum með þessu greiða götu málsins og auka hjeraðsbúum kjark til að byrja á fjársöfnun.

Jeg hygg, að á Austurlandi sje hvergi eins mikil þörf á brúm, nema ef vera skyldi á Grímsá á Völlum.

Jeg vona, að af því að hjer er ekki farið fram á neitt fjárframlag að sinni, þá mun hv. deild sýna þessu frv. þá velvild og sanngirni að leyfa því að ganga fram.