14.08.1917
Neðri deild: 33. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1101 í C-deild Alþingistíðinda. (3489)

129. mál, brýr á Hofsá og Selá

Flm. (Þorsteinn Jónsson):

Hv. þm. Stranda. (M.P.) lagði áherslu á það, að hjer væri um það fordæmi að ræða, er kosta myndi landssjóð mörg hundruð þús. kr. í framtíðinni. Jeg fyrir mitt leyti er ekki svo hræddur við þetta fordæmi, því að mín stefna í þessum málum er sú, að landið eigi að sjálfsögðu, þegar því er fært, að brúa ár landsins, hvort sem vegurinn heitir þjóðvegur eða sýsluvegur, sem liggur yfir þær, ef hann er fjölfarinn, og árnar því farartálmi mörgum landsmönnum. Hann lagði áherslu á, að hjer væri skapað fordæmi, en svo er alls ekki. Mjer er ekki kunnugt, hve margar brýr eru kostaðar úr landssjóði á sýsluvegum, en svo vel vill til, að jeg hefi farið sýsluveg úr Múlasýslu norður í Þingeyjarsýslu, og á þeim vegi eru 2 brýr, sem kostaðar eru að öllu leyti úr landssjóði, sem sje brýrnar á Hölkná og Sandá í Þistilfirði; enn fremur brýrnar á Hölkná og Miðfjarðará á Ströndum, sem eru kostaðar af landssjóði að hálfu leyti. Þessar ár eru á sömu aukapóstleið og Selá og Hofsá. Af þessu getur deildin sjeð, að það hefir áður verið talin nauðsyn að brúa ár á þessari leið og gera hana greiðfærari, af því að hún er svo fjölfarin. Nú er engin þessara 4 ára, er jeg nefndi, eins mikið vatnsfall og Hofsá, og, eins og jeg tók fram áðan, verða menn fyrir miklu tapi á hverju ári, af því að hún er ekki brúuð. Engin þessara tjögra áa er eins hættuleg yfirferðar og Selá. Þessi vegur heitir ekki þjóðvegur, en er eins fjölfarinn og margir þjóðvegir. Það gæti vel verið rjett að breyta vegalögunum og taka þennan veg í tölu þjóðvega. Og skeð gæti, ef breytt væri nafninu á þessum vegi og hann kallaður þjóðvegur, að hv. þm. Stranda. (M. P.) þætti sjálfsagt, að landssjóður kostaði brýr þessar að öllu leyti.

Jeg verð að lýsa yfir því, að jeg tel þetta svo sanngjarna kröfu, að jeg átti ekki von á, að nokkur gæti hreyft mótmælum.