14.08.1917
Neðri deild: 33. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1105 í C-deild Alþingistíðinda. (3491)

129. mál, brýr á Hofsá og Selá

Magnús Guðmundsson:

Jeg verð að taka í sama strenginn og hv. þm. Stranda. (M. P.), að mjer finst það undarlegt að ætla að búa til lög um að brúa ár á sýsluvegum einhvern tíma í framtíðinni. Jeg held, að það sje nær að hugsa fyrst um að brúa stórárnar á þjóðvegunum, sem búið er að ráðgera að brúa fyrir löngu síðan, eins og t. d. Jökulsá á Sólheimasandi, Eyjafjarðará, Hjeraðsvötn, Hvítá, Víðidalsá o. fl.

Jeg segi fyrir mig, að verði þetta frv. samþykt, þá dettur mjer ekki annað í hug en koma með frv. um það að brúa 3 eða 4 ár í Skagafirði, sem er að minsta kosti eins mikil ástæða til að brúa eins og þessar ár í Vopnafirði. Það er leitt að sjá sjer ekki fært nú að brúa stórárnar, og þegar svo er er það hugsunarvilla að ætlast til laga um brúun smááa. Jeg skal t. d. geta þess, að enn vantar brú á Hjeraðsvötnin á þjóðveginum. Hæstv. atvinnumálaráðherra fór þar um í vor, og getur borið um, hvort ekki væri þörf á brú þar. Þar verður, þegar flóð er í, að ríða tvær kvíslar á sund, eftir að komið er af dragferjunni, eða áður en stigið er í hana, eftir því, hvort ferð er heitið austur eða vestur yfir. Auk þess verður að ríða út úr ferjunni eða upp í hana, og sjá allir, hversu þægilegt það er. Hjer er því mikil nauðsyn á brú, og vjer Skagfirðingar finnum sárt til þeirrar nauðsynjar, en vjer erum svo sparsamir, að vjer töldum það ekki gerlegt, eins og nú standa sakir.

Jeg veit ekki, hvort skilja átti háttv. 1. þm. N.-M. (J. J.) svo, að hann sæi ofsjónum yfir því, sem veita á til brúar á austurkvísl Hjeraðsvatnanna, — en ef svo hefir verið, skal jeg, til þess að sýna fram á, að þetta er ósanngjarnt, fræða menn á því að Skagafjarðarsýsla er nú búin að brúa 10 ár á sýsluvegum, og mun hafa varið til þess undir 100.000 kr., svo að auðsætt er, að hún hefir ekki legið á liði sínu. —

Að lokum vil jeg svo lýsa yfir því, að jeg álít, að frv. þetta ætti ekki að fara lengra en það er komið. Það er ekki þess vert, að það fari til 2. umr.